Bráðamóttakan enn stappfull og biður fólk „sem ekki er í bráðri hættu“ að leita annað

Bráðamóttakan í Fossvogi varar enn einu sinni við miklu álagi, í tilkynningu sem birtist í dag, þriðjudag, og biður fólk sem ekki er í bráðri hættu að leita annað, hringja heldur í 1700 eða leita upplýsinga á netspjalli Heilsuveru.

Í tilkynningunni segir að venju að bráðamóttakan forgangsraði nú eftir bráðleika. Fólk sem ekki er í bráðri hættu geti því þurft að bíða lengur en annars eftir þjónustu. „Ef því verður mögulega við komið er þess vegna æskilegt að reyna að leita annað.“

Að sögn heimildamanns er ástandið til komið af svipuðum ástæðum og áður: innlagðir sjúklingar komist ekki á deildir.

Þetta er í fjórða sinn á um mánuði sem tilkynning af þessum toga berst frá bráðamóttökunni. Álagið undanliðnar vikur hefur að verulegu leyti stafað af Covid-sýkingum, að sögn heimildamanns blaðsins. Vonir standa til að sú bylgja hafi nú náð hápunkti, en það mun skýrast þegar vikuskýrsla sjúkrahússins um stöðu öndunarfærasjúkdóma birtist síðar í vikunni.

Um leið er ljóst að bráðamóttakan hefur vart haft undan álagi frá því áður en heimsfaraldurinn hófst. Þannig sagði Helga Vala Helgadóttir í þingræðu haustið 2019: „Nú hefur hver starfsmaður bráðamóttöku á fætur öðrum komið fram í fjölmiðlum með neyðarkall til stjórnvalda um aðgerðir og það án tafar, áður en stórslys verður.“

Helga Vala sagðist þá hafa heimsótt bráðamóttökuna með Hönnu Katrínu Friðriksson, þingmanni, „og það er alveg ljóst að bregðast verður við án tafar og að sögn starfsfólksins innan mánaðar, já, áður en haust- og vetrarflensur skella á.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí