Engin furða að fólk sniðgangi bókmenntahátíð vegna Hillary Clinton, segir Ingibjörg Sólrún

Engan þarf að undra „þó að einhverjir taki sig saman og mótmæli og jafnvel sniðgangi með opinberum hætti“ bókmenntahátíð sem gefur „tákngervingi umdeildra pólitískra aðgerða“ sviðið. Þetta skrifar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, um fyrirhugaða komu Hillary Clinton á hátíðina Iceland Noir nú um helgina og mótmæli fjölda rithöfunda og fleiri gegn þátttöku hennar. Ingibjörg segir þátttöku Clinton til marks um frægðarvæðingu sem „í síauknum mæli er farin að setja mark sitt á flest málefni.“ Sú áhersla, þar sem fólk með djúpa þekkingu eða víðtæka reynslu víkur fyrir „stjörnum“ gengisfelli viðburði og geri þá að afþreyingu.

Færsla Ingibjargar

Um frægðarvæðingu

Úr talsvert mikilli fjarlægð hef ég að undanförnu fylgst með umræðunni um Iceland noir bókmenntahátíðina og hvort rétt sé að sækja hana eða sniðganga vegna þátttöku Hillary Clinton, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mótmælendur sjá í Hillary Clinton tákngerving þeirrar utanríkisstefnu undanfarinna áratuga sem hefur ævinlega dregið taum Ísraelsstjórnar með þeim hörmulegu afleiðingum sem við erum vitni að á og við Gaza þessa dagana. Skipuleggjendur virðast hins vegar felmtri slegnir yfir mótmælum og sniðgöngu og benda á að Hillary sé komin til að tala um skáldsögu sem hún skrifaði með vinkonu sinni en ekki utanríkismál. Fólk geti líka ákveðið sjálft hvort það fer á þennan tiltekna viðburð eða ekki.

Færsla Ingibjargar birtist á Facebook laugardaginn 18. nóvember.

Þátttaka Hillary Clinton í þessari bókmenntahátíð hefur í sjálfu sér ekkert með bókmenntir að gera heldur er angi af þeirri frægðarvæðingu sem í síauknum mæli er farin að setja mark sitt á flest málefni. Þróunin hér á landi er í takti við það sem er að gerast erlendis. Viðburðir virðast ekki ná máli nema þeir skarti a.m.k einni stjörnu sem er áberandi í fjölmiðlum. Er þá í raun algert aukaatriði hvort viðkomandi hefur lagt sig eftir því málefni sem um ræðir og öðlast djúpa þekkingu sem byggir á miklum umþenkingum eða víðtækri reynslu. Alþjóðlegar ráðstefnur um kvenfrelsismál hafa mátt búa við þetta og kveður reyndar svo rammt að því að konur sem daglega velta steinum úr götu annarra kvenna passa ekki lengur í selskapið.

Frægðarvæðingin gengisfellir viðburði og þeir verða að afþreyingu. Það eitt og sér getur verið sársaukafullt fyrir þá sem brenna fyrir því málefni sem er á dagskrá þó að yfirleitt láti fólk það möglunarlaust yfir sig ganga, mæti með hundshaus eða sniðgangi í einrúmi. En þegar tákngervingar umdeildra pólitískra aðgerða fá sviðið þá þarf engan að undra þó að einhverjir taki sig saman og mótmæli og jafnvel sniðgangi með opinberum hætti. Í því felst engin árás á skipuleggjendur eða aðra þátttakendur heldur afstaða og skilaboð sem full ástæða er til að gaumgæfa.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí