Sniðganga Eurovision en mæta á Hillary – eða öfugt? Íslenskt menningarlíf fæst við átökin á Gasa

Fáir virðast hafa andmælt þeirri tillögu Illuga Jökulssonar að Íslandi beri að sniðganga næstu Eurovision-keppni ef Ísrael tekur þátt, undir nýkynntu slagorði keppninnar „Sameinuð með tónlist.“ Í því samhengi skrifaði Illugi á miðvikudag: „Ég ætla að leyfa mér að fara fram á að Ríkisútvarpið gefi þegar í stað skýrt til kynna að við verðum EKKI með ef ætlast er til að við séum þar SAMEINUÐ MEÐ ÍSRAEL. Frasar um að ekki eigi að blanda „pólitík“ í þessa söngvakeppni munu hljóma eins og klám þegar farið verður að veifa þar fánum Ísraels.“

yfirlýsing sem barst frá ritstjórn bókmenntavefsins Lestrarklefans sama dag, um vefurinn muni sniðganga glæpasagnahátíðina Iceland Noir, gesti hennar og bækur, vegna boðaðrar þátttöku Hillary Clinton í hátíðinni, hefur aftur á móti reynst umdeildari. „Að bjóða hana velkomna á íslenska listahátíð er stuðningur við hennar málflutning. Í því felst afstaða gegn vopnahléi, gegn Palestínu og með ofbeldi,“ segir í yfirlýsingunni, en eins og rakið hefur verið í umfjöllun Samstöðvarinnar lýsti Clinton sig nú í vikunni eindregið mótfallna vopnahléi á Gasa. Í kjölfarið hafa rithöfundarnir María Elísabet Bragadóttir og Pedro Gunnlaugur Garcia, handhafi íslensku bókmenntaverðlaunanna 2022, afboðað þátttöku sína á hátíðinni.

Ekki verri stríðsæsingamaður en hver annar

„Ég er ekki hrifinn af þessari sniðgöngustefnu, þegar rithöfundar fitja upp á nefið og telja sig ekki geta verið í sama herbergi og einhverjar tilteknar manneskjur vegna stjórnmálaskoðana/afskipta viðkomandi,“ skrifar Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og stjórnmálamaður, á Facebook nú að morgni fimmtudags. „Mér finnst að einmitt rithöfundar eigi að sækjast eftir samneyti við annað fólk, og þá alveg sérstaklega fólk með aðrar skoðanir og hugmyndir en maður sjálfur hefur – ekki síst fólk sem maður er innilega ósammála …“

Hér tekur Illugi Jökulsson undir með Guðmundi Andra: „Ég hef aldrei almennilega skilið hvers vegna fólki er svo tamt að líta á hana sem einhvern sérstakan froðufellandi stríðsæsingamann. Hún er amerískur pólitíkus og hefur venjulegar skoðanir amerískra pólitíkusa sem komist hafa til æðstu metorða, en ég hef ekki staðið hana að einhverjum sérstökum eða verri stríðsæsingum en títt er um það fólk.“

Við ummæli Illuga skrifar Elfur Logadóttir, framkvæmdastjóri: „Hún er kona, Illugi, það þarf ekki meira.“

Fráleitt að sniðganga bókmenntahátíð

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, fræðimaður og rithöfundur, segist líka sammála Guðmundi Andra: „Þessi sniðgönguáskorun er ekki í anda opinnar umræðu og heilbrigðra skoðanaskipta.“ Hún segist hafa kynnt sér það sem Clinton hafi að segja um deiluna fyrir botni MIðjarðarhafs, þar sem Clinton hafi sjálf leitt friðarviðræður árið 2012 og þekki vel til málefnisins. „Hún gerir greinarmun á kröfunni um vopnahlé … og mannúðarhléi sem hún styður eindregið. Það er fráleitt að sniðganga bókmenntahátíð þar sem hún kemur fram, væri nær að mælast til þess að hún sé spurð um afstöðu sína og fái að útskýra sjónarmiðið.“

Valdimar Örn Flygenring, leikari, setur kröfuna um sniðgöngu bókmenntahátíðarinnar í samhengi við slaufunarmenningu og skrifar: „Þessi cancel kúltúr er ekkert annað en ofbeldi og það eina sem hann leiðir af sér er einsleitara og veikara samfélag. Til þess fallið að gelda allar listgreinar … kannski það sé tilgangurinn.“

Sniðganga og mótmæli einu vopn almennings

Viðbrögðin við færslu Guðmundar Andra eru þó ekki svona einhliða. Hjálmtýr Heiðdal, kvikmyndagerðarmaður og aðgerðasinni, rekur yrðingar Hillary Clinton um yfirstandandi átök sem hann segir „nóg til þess að sjá að hún er fulltrúi bandarískrar heimsvaldastefnu og þannig ber að mæta henni þegar Ísraelsher gengur berserksgang og drepur almenna borgara eins og enginn sé morgundagurinn – og eru 6000 myrt börn ekki nóg? Eða truflar það ykkar daglega þægindalíf að Hillary sé ekki tekið með opnum örmum af þeim sem setja málin í samhengi?“

Þegar Illugi Jökulsson segist ekki ætla að réttlæta skoðanir Clintons en spyr Hjálmtý hvers vegna skyldi þó sniðganga bókmenntahátíð vegna nærveru hennar svarar Hjálmtýr að Clinton sé „ónæm fyrir orðum – nema þeim sem lofa Ísrael og rétt þeirra til að „verja sig“.“ Hjálmtýr segir að sniðganga og mótmæli séu einu vopnin sem almenningur hefur. Palestínumenn missi „meira land og fleira fólk á hverjum degi sem líður meðan Hillari o.fl. spranga um heiminn með bros á vör og eigin heimasmíðuðu „réttlætiskennd“.

„Jújú, rétt er það, því miður,“ svarar Illugi.

Friðsamleg mótmæli gegn barnamorðum

Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar, tekur þátt í umræðunum á þræðinum hjá Guðmundi Andra og segir fólk mega „mín vegna ganga út þegar Hillary gengur í salinn og mótmæla með því loftárásunum á Líbíu, svo eitthvað sé nefnt. Jafnvel henda í hana skó. En það sama mætti gera ef Össur Skarphéðinsson væri einhvers staðar að halda ræðu, því hann fékk okkur til að styðja þessa glæpi sem leitt hafa hörmungar yfir milljónir. Og gera enn.“ „Sá sem varpar sprengjum á fólk,“ skrifar Gunnar Smári, „getur ekki farið fram á einhverja sérstaka kurteisi gagnvart sínu háæruverðuga útblásna sjálfi. Megi skömm Hillary fylgja henni ofan í gröf hennar. Og megi hún finna það hvar sem hún kemur af augnaráði og fasi fólks að það hafi ekki gleymt glæpum hennar.“

Egill Helgason, fjölmiðlamaður, stingur að færri orðum: „Hér vilja menn sniðganga hana en Trump vildi loka hana inni. Meiri dellan.“

Líklega er hæpið að láta sem nokkur eigi lokaorðið í deilu sem þessari. En þegar þessi umfjöllun er tekin saman er þó eins og marga hafi sett hljóða eftir ummæli Kristínar Eiríksdóttur, rithöfundar og myndlistarmanns, sem skrifaði: „Ef það er eitthvað sem ég get gert til þess að mótmæla þjóðarmorðinu sem verið er að fremja, þótt ekki sé nema eitthvað örlítið sem hjálpar með þessa algjöru vanmáttarkennd sem fyllir mig andspænis glórulausri grimmdinni, þá skal ég gera það. Hvort það er að sniðganga bókmenntahátíð, lárperur, soda-stream eða minna á stöðu mála hér og á instagram. Svo má alveg fitja upp á nefið yfir því, en það hefur ekkert að gera með cancel kúltúr heldur eru það bara friðsamleg mótmæli: gegn barnamorðum.“

Mætir sem rithöfundur, ekki pólitíkus

Auður Jónsdóttir, rithöfundur, tekur ekki þátt í þræðinum við færslu Guðmundar Andra heldur birtir eigin grein um efnið á Facebook, með skírskotun til hennar. Auður skrifar: „Stundum er best að þegja. En ég rakst á færslu Guðmundar Andra um bókmenntahátíðir, hvernig þar heyrast allar raddir og ólíkt fólk mætist, og ég er svo sammála því. Bókmenntahátíð er vettvangur þar sem það á að vera hægt. Á alþjóðlegum bókmenntahátíðum blandast maður ólíklegasta fólki, man eftir því að hafa einu sinni verið í lyftu á hátíðinni í Gautaborg með Desmond Tutu. Og glæpamenn eins og Jean Genet sem skrifaði Dagbók þjófs geta skrifað dúndur bókmenntir.“

Færsla Auðar er nokkuð ítarleg og verður ekki rakin hér nema að hluta. Auður segir meðal annars: „Hillary mætir sem rithöfundur, ekki sem pólitíkus,“ og að hún geti ekki rökstutt fyrir sjálfri sér „að sniðganga bókmenntahátíðina Iceland Noir þar sem Hillary Clinton verður þar að tala.“ Þar taki hún sjálf þátt í pallborðsumræðum, auk þess sem hún þekki forsprakka hátíðarinnar, Yrsu og Ragnar, og viti hvað það hafi tekið „mikinn tíma og mikla fyrirhöfn að fá Hillary hingað til landsins. Að fá manneskju á borð við hana hingað er ekkert sem gerist á örfáum mánuðum, undirbúningur getur tekið fleiri ár. Engan óraði fyrir að ástandið ytra yrði það sem það er í dag, né að Hillary yrði sett í það samhengi.“ Að hátíðin sjálf sé „sett í þetta pólitíska samhengi, og þau sem að henni standa, finnst mér ekki réttmætt. Enginn sá þetta fyrir. Það var verið að reyna að gera hátíðina sem veglegasta.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí