Annar þáttur af Reykjavíkurfréttum var sýndur sl. þriðjudag. Í honum var farið yfir víðan völl. Þáttinn allan má sjá með því að smella hér. Í byrjun hans var farið yfir helstu fréttir síðustu daga í borginni. Karl Héðinn Kristjánsson, formaður Roða – Ungra sósíalista kom í settið til að fara yfir stöðuna.
Meðal helstu frétta var sú staða sem komin er upp að olíufélög hafa ekki lokað einni einustu bensínstöð í Reykjavík þrátt fyrir ívilnanir og samninga sem þau gerðu við borgina um fækkun.
Reykjavík hafði sett sér markmið um helmingsfækkun bensínstöðva fyrir árið 2025. Staðan er hins vegar sú að þeim hefur ekki fækkað um eina frá því samningarnir voru gerðir. Auk þess fengu olíufélögin heimildir til að byggja íbúðarhúsnæði á lóðunum með sérstökum ívilnunum frá helstu gjöldum.
Karl Héðinn gagnrýnir borgarstjóra fyrir að hafa kvittað upp á svona samninga:
„Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem borgin er að gera samninga þar sem mótaðilinn þarf ekki að efna sinn hluta. Hver er að gera samninga fyrir borgina? Þau (olíufélögin) fá það sem þau vilja en borgin fær ekki sitt í staðinn.“
Reykjavíkurborg á lóðirnar sem um er að ræða. Olíufélögin voru með lóðaleigusamninga sem voru við það að renna út. Þannig hefði borgin getað fengið lóðirnar til baka og byggt á þeim sjálf. Hins vegar er ekki vilji hjá meirihluta borgarstjórnar til þess. Dagur B Eggertsson borgarstjóri hefur talað eindregið gegn slíkum áformum. Olíufélögin fá meira traust til að halda utan um húsnæðisuppbygginguna heldur en borgin sjálf.
„Þó það myndi gerast að þessar bensínstöðvar færu, að þessi samningur myndi ganga eftir, þá ertu með húsnæðisuppbyggingu sem er bara á forsendum fjármagnsins, forsendum olíufyrirtækjanna eða eigenda þeirra. Bara einhverjir braskarar að fara að koma þarna inn til að græða sem mest á því að selja íbúðirnar eða búa til einhver helvítis leigufélög.“
Talið barst síðan að hugmyndum sósíalista, sem hafa lengi talað fyrir því að borgin byggi sjálf á eigin lóðum. Dagur B Eggertsson borgarstjóri hefur ítrekað slegið þær hugmyndir af borðinu. Karl Héðinn telur það vera merki um þá hugmyndafræði sem borgarstjóri og hans flokkur í borginni hefur tileinkað sér:
„Þarna ertu bara djúpt í nýfrjálshyggju hugmyndafræðinni.“
Umræðurnar má sjá hér í þessu myndbandi: