„Árið 2019 reis stór íbúðablokk miðsvæðis í Reykjavík, Reykjavíkurborg fagnaði og sagði að tryggt væri að íbúðirnar færu til fólks á húsnæðismarkaði, max 30% af íbúðum mættu fara í ferðamenn/hótel eitthvað: þetta er staðan þar í dag.“
Þetta skrifar Helga Lilja á Twitter og birtir mynd úr anddyri hússins, sem sjá má hér fyrir ofan. Af myndinni að dæma þá er draumurinn frá árinu 2019 löngu dauður. Nær allar íbúðirnar eru í eigu sama fyrirtækisins, Sif Apartments. Samkvæmt heimasíðu þess þá eru þessar íbúðir leigðar út til skemmri tíma, augljóslega fyrst og fremst til ferðamanna.
Það eru engar ýkjur hjá Helgu Lilju að þessar íbúðir hafi verið hugsaðar fyrir Reykvíkinga, en ekki ferðamenn, þegar blokkin var byggð fyrir nokkrum árum. Það sést glögglega af lestri kynningar um blokkina frá íbúðamessu Reykjavíkurborgar árið 2016. Þar er lofað að blokkin verði „hlýlegur miðbæjarkjarni“ með „lifandi torgmenning“. Sem sagt „mannlíf og menning“, líkt og það er orðað í glærusýningunni.
Fyrir einungis sjö árum dreymdi mönnum að við Bríetartún gætu Íslendingar upplifað ekta torgmenningu. „Markmið okkar er að skapa á Höfðatorgi torgmenningu af því tagi sem Íslendingar hafa kynnst víða erlendis og áhugaverða viðbót við aðra staði þar sem borgarbúar hittast á tyllidögum, s. s. Austurvöll, Ingólfstorg og Arnarhól,“ segir í kynningunni.
En því miður þá er engin torgmenning við Bríetartún í dag, heldur hálfgerður draugabær. Helga Lilja segist vita hvernig þetta gat skeð. „Hinn frjálsi markaður sér um sína verktaka. Og ríki eða borg hafa engin tól til að breyta þessu,“ segir hún í öðru tísti.