Bílar geta ekið á sjálfstýringu um Reykjanesbraut og Ártúnsbrekku

„Hvar er bílstjórinn?“ spyr ungur maður og virðist skemmt, í kyrrstæðum bíl í vegarkanti. Á bakvið bílinn blikka blá ljós á lögreglubíl, lögreglumaður gægist inn um gluggann og spyr: „Varst þú að keyra eða?“ Ungi maðurinn endurtekur hlæjandi: „Strákar, hvar er bílstjórinn?“ Í framsæti bílsins situr enginn. Þetta stutta myndskeið birtist á TikTok-reikningnum „Íslenskt rugl“ á fimmtudag, með yfirskriftinni: „Lögreglan stoppar Teslu með engan bílstjóra 😱😂“

Þegar þetta er skrifað, á föstudag, hefur myndskeiðið fengið yfir 37.000 áhorf. Af upptökunni einni er ekki ljóst hvort ökumaður er þar að grínast í lögreglu til að forðast ábyrgð á akstrinum eða hvort þessi tiltekna bifreið var á sjálfstýringu þegar lögreglan stöðvaði hana. Myndskeiðið virtist þó tilefni til að athuga hvort gera má ráð fyrir sjálfakandi bílum á vegum landsins yfirleitt. Svarið er í stystu máli: já, kannski, að minnsta kosti á tveimur vegum.

Getur skipt um akreinar á Reykjanesbraut

Fulltrúar umferðarlögreglunnar svöruðu ekki síma á föstudag.

Blaðamaður hringdi í Tesla-umboðið á Íslandi en var svarað af alþjóðlegu þjónustuveri. Starfsmaður þess sagðist, á ensku, þó geta svarað spurningum sem sneru sérstaklega að Íslandi. Hann sagði að „Autopilot“ Tesla-bíla virkaði utan borga, og það ætti að vera tilfellið á Íslandi eins og annars staðar.

Við aðra tilraun náðist samband við íslenskan þjónustufulltrúa, sem dró nokkuð í land: hann útskýrði að sjálfstýringin virkaði eiginlega aðeins á hluta Reykjanesbrautar og í Ártúnsbrekku. Aðspurður hvers vegna, útskýrði hann nánar að þeir vegarkaflar væru skilgreindir í Google Maps sem „highway“. Þar gæti bíllinn sjálfur annast akstur, skipt um akreinar og slíkt „en þú þarft þó sjálfur að halda um stýrið.“

Á vefsíðu bílaleigunnar rentatesla.is má lesa svar við þeirri spurningu hvort takmarkanir séu á notkun sjálfstýringar, eða Tesla Autopilot á Íslandi, til dæmis á tilteknum vegum eða við ákveðin veðurskilyrði. Þar er gefið það svar að notkun Tesla Autopilot sé háð „sömu reglum og reglugerðum og gilda fyrir öll önnur farartæki. Það er á ábyrgð ökumanns að tryggja að farartækinu sé beitt örugglega og í samræmi við landslög.“ Þegar blaðamaður hringdi til fyrirtækisins í leit að nánari upplýsingum um ráðleggingar þess fékkst aftur samband við alþjóðlegt símaver. Þjónustufulltrúi þar sagði sjálfstýringuna ekki nýtast á Íslandi, ekki eins og í Bandaríkjunum, bíllinn kæmist ekki á eigin spýtur gegnum hringtorg, til dæmis, og þá myndi hann einfaldlega staðnæmast þar til bílstjóri tæki við, sem væri hættulegt í umferðinni.

Flokkun sjálfstýringar

Sjálfstýringu Tesla-bíla er skipt í þrennt, samkvæmt upplýsingum á vef fyrirtækisins sjálfs: „Autopilot er staðalbúnaður í öllum nýjum Tesla bílum“ segir þar. Það er takmarkaðasta útgáfa sjálfstýringar sem fyrirtækið býður upp á, „stillir hraða bílsins í samræmi við umferðina“ og „hjálpar til við að stýra bílnum þar sem akreinar eru greinilega merktar.“ Eigendur bílanna geta keypt aðgang að aukinni sjálfstýringu til viðbótar, „Enhanced Autopilot“ og „Fulla sjálfkeyrslugetu“. Með fulla getu á bíllinn, án aðkomu bílstjóra, að geta skipt um akreinar, lagt í stæði, komist í og úr þröngum rýmum, ekið „við flóknari aðstæður og á bílastæðum, farið kringum hindranir,“ „þekkt stöðvunarskilti og umferðarljós og hægt á bílnum þegar hann nálgast slíkt.“

Fyrirtækið tekur fram að öll þrjú stig sjálfstýringar krefjist enn „virks eftirlits bílstjóra og gera ökutækið ekki sjálfstýrt“. Ástæðuna útskýrir fyrirtækið í stuttu máli: „Virkjun og notkun þessara eiginleika er háð því að ná fram áreiðanleika sem er meiri en mannlegir ökumenn hafa sýnt á milljörðum eknum kílómetrum sem og samþykki eftirlitsaðila.“

Þjónustufulltrúi Tesla á Íslandi sagðist ekki mæla með því við fólk að það keypti viðbótargetuna hér á landi, þar sem gagn hennar væri enn afar takmarkað hér og sjálfstýring bíla auk þess ekki leyfð á Íslandi frekar en í öðrum löndum Evrópu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí