Hillary Rodham Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins og þar áður forsetafrú, er væntanleg til Íslands. Fyrirhugað er að hún komi fram á atburði í Hörpu næstkomandi sunnudag, lið í dagskrá glæpasagnahátíðarinnar Iceland Noir, en í slagtogi við höfundinn Louise Penny skrifaði Clinton glæpasöguna State of Terror, metsölubók sem kom út haustið 2021.
Fjöldi framáfólks í íslensku bókmennta- og menningarlífi hefur gagnrýnt hátíðina fyrir þennan dagskrárlið og nú fyrir ritskoðun þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram. Þá greindi Vísir á miðvikudag frá höfundum og bókaunnendum sem hvetja nú til sniðgöngu hátíðarinnar. Sú hvatning er rökstudd með afstöðu Clinton til stríðsreksturs Bandaríkjanna í gegnum tíðina, almennt, en þó sér í lagi vegna afstöðu hennar til stríðsins á Gasa hér og nú, ekki síst yfirlýstrar andstöðu hennar við vopnahlé.
Fyrri vopnahlé mistök
Innan vinstrisinnaðri grasrótar Demókrataflokksins hefur samúð og samstaða með íbúum Palestínu orðið sýnilegri á síðustu árum og birtist skýrt um þessar mundir, í kröfunni um vopnahlé á Gasa. Joe Biden, Bandaríkjaforseti, og stjórn hans, taka ekki undir þá kröfu. Milli fylkinga innan flokksins birtist umtalsverð togstreita í málinu. Afstaða Clintons til kröfunnar um vopnahlé á Gasa er afdráttarlaus: hún er, á þessu stigi, mótfallin vopnahléi. Clinton gerði grein fyrir þeirri einörðu afstöðu sinni í grein sem birtist nú á þriðjudag, í tímaritinu The Atlantic, undir titlinum „Hamas Must Go“ eða Hamas verður að fara.
Grein sína hefur Clinton á sögu frá árinu 2012, þegar hún, sem utanríkisráðherra í stjórnartíð Baracks Obama, freistaði þess að liðka fyrir friðaviðræðum milli Hamas og Ísraelsstjórnar, í viðleitni sem hún segir síðan komið á daginn að hafi verið mistök: Hamas hafi rofið umsamið vopnahlé árið 2014, vopnast að nýju, endurtekið árásir árið 2021, og loks hafi „allt þetta náð hámarki í hinu hrottafengna blóðbaði óbreyttra ísraelskra borgara í síðasta mánuði, versta fjöldamorði gyðinga síðan í helförinni.“
Vopnahlé styrkir Hamas
Clinton segir að þessi saga veiti þrenna innsýn í yfirstandandi hættuástand. Í fyrsta lagi hafi árás Hamas þann 7. október sl. gert ljóst að „þessum blóðuga vítahring“ verði að linna, að ekki megi leyfa Hamas að vopnast og hefja árásir á ný „og halda á meðan áfram að nota íbúa Gasa sem mannlega skildi sem megi fórna.“ Í öðru lagi: „algert vopnahlé sem skildi Hamas eftir við völd væru mistök. Sem stendur er viturlegra að leitast eftir því að setja á afmarkaðri mannúðarhlé til að hleypa hjálpargögnum inn og óbreyttum borgurum og gíslum út.“ Í þriðja lagi segir hún að sú langtímastefna Ísraels að halda Hamas í skefjum hafi brugðist, þörf sé á nýrri aðferð og nýrri forystu í Ísrael.
Að því sögðu víkur Clinton máli að tilfinningatengslum sínum við viðfangsefnið er hún segir frá nánum tengslum sínum við íbúa Ísraels, annars vegar, og konum sem hún kynntist á Gasa, hins vegar, sem notuðu smálán frá Bandaríkjunum til að hefja sinn eigin rekstur, áður en Hamas tók völd á svæðinu. Hamas, segir hún, „hafa sannað það aftur og aftur að þeir standa ekki við vopnahlé, munu skemma fyrir öllum tilraunum til að koma á varanlegum friði, og munu aldrei hætta að ráðast á Ísrael.“
Þá staðhæfir Clinton að þau dauðsföll sem verða á Gasa séu á ábyrgð Hamas: „Hamas staðsetur herbúðir vísvitandi í og undir sjúkrahúsum og flóttamannabúðum vegna þess að þeir reyna að hámarka, ekki lágmarka, áhrifin á óbreytta borgara í Palestínu í þágu áróðursmarkmiða sinna. Mannúðarkrísan á Gasa er átakanleg – og sérhvert dauðsfall þýðir meira blóð á höndum Hamas.“
Milošević og Pútín hafa viljað vopnahlé
„Þess vegna,“ skrifar Clinton loks, „er rétt hjá ríkisstjórn Bidens að leitast ekki eftir algeru vopnahléi á þessari stundu, sem myndi gera Hamas kleift að vopnast að nýju viðhalda vítahring ofbeldisins. Hamas myndi halda því fram að þeir hefðu unnið og yrðu enn lykilþáttur í hinu íranska, svonefnda, öxulveldi andspyrnunnar.“
Vopnahlé, skrifar Clinton ennfremur, „frysta átök frekar en leysa úr þeim.“ Hún nefnir til dæmis árið 1999, þegar „serbneski einræðisherrann Slobodan Milošević kallaði eftir vopnahlé í Kósovó, þegar NATO beitti loftárásum til að reyna að stöðva hinar grimmilegu þjóðernishreinsanir hans. Það var kaldranaleg tilraun til að viðhalda yfirráðum Serbíu í Kósovó og ríkisstjórn Clintons hélt sprengjuárásunum til streitu þar til heraflar Milošević létu undan. Í dag kalla bandamenn rússneska forsetans Vladimír Pútín eftir vopnahlé í Úkraínu af því að þeir vita að frysting átakanna mun viðhalda yfirráðum Rússlands á víðfeðmum úkraínskum landsvæðum sem það hrifsaði til sín ólöglega. Pútín gæti styrkt herafla sinn á ný og haldið átökunum áfram á tíma sem hentaði honum betur.“
Seinna þarf frið – og tvö ríki
Greinin er lengri en hér verður rakið, og Clinton ítrekar, oftar en hér verður endurtekið, mikilvægi þess að ekki komi til vopnahlés á Gasa. Hún tekur fram að það að hafna „ótímabæru vopnahlé“ feli ekki í sér að verja allar aðferðir Ísraels né dragi það úr ábyrgð Ísrels á að fylgja lögum um stríð. „Að lágmarka borgarlegt mannfall er lagaleg og siðræn nauðsyn,“ segir hún, auk þess sem það sé „hernaðarlega mikilvægt,“ enda sé öryggi Ísraels til lengri tíma háð friðsælli sambúð ríkisins við nágranna sína.
Þá ræður Clinton ísraelskum stjórnvöldum frá því að „láta undan freistingunni að hernema svæðið eftir stríðið,“ heldur sé farsælla að gera ráð fyrir að bráðabirgðastjórn taki þar við völdum, með alþjóðlegt umboð, um leið og með umbótum á svæðinu verði unnið að því að auka trúverðugleika yfirvalda á Vesturbakkanum (Palestinian Authority) til að þau geti tekið við völdum á Gasa. Hún segir brýnt að brugðist verði hart við ofbeldi öfgafullra ísraelskra landnema á Vesturbakkanum gegn Palestínufólki og að stofnun nýrra landtökubyggða verði stöðvuð. Eina leiðin til að tryggja örugga og lýðræðislega framtíð Ísraels sem gyðinglegs ríkis felist í „tveimur ríkjum tveggja lýða“.
Greinina alla má lesa á vef The Atlantic. Fyrirhugað er að viðburðurinn með Hillary Clinton og Louise Penny fari fram í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 19. nóvember klukkan 16. Uppselt er á viðburðinn, samkvæmt vef Hörpu.