Þórarinn gagnrýnir orð Katrínar um jafnrétti

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, skrifar pistil á vef Vísi undir heitinu Katrín og kvennabaráttan. Forsætisráðherra sagði í viðtali í þættinum Segðu mér við útvarpssjóra að hún eigi sér draum að fullu jafnrétti verði náð árið 2030 í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Þórarinn Eyfjörð spyr í pistli sínum hvað standi í veginum og það þurfi framkvæmd til að láta drauma sína rætast. Hann segir, að á meðan hana dreymir um jafnrétti sé ríkissjórn hennar að skera niður í fjárveitingum til heilbrigðiskerfisins og standi fyrir niðurskurði til velferðarmála.

„Katrín veit hver staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar er,“ skrifar Þórarinn. „Verðbólgan er mikil og kaupmáttarrýrnun launafólks staðreynd en hagnaður banka og fyrirtækja ævintýralega mikill. Þrátt fyrir orð Katrínar um að jafnrétti, efnahagslegt réttlæti og velferð á Íslandi skipti þjóðina öllu máli, stendur ríkisstjórnin fyrir niðurskurði til velferðarmála. Skorin er niður fjárveiting milli ára til heilbrigðiskerfisins og stefnan er sú að einkavæða opinberar stofnanir og skera niður í styrkjakerfum sem ungt fjölskyldufólk, einstæðir foreldrar og kvennastéttir á lágum launum þurfa að reiða sig á. Það er ekki einungis aðför að velferð þjóðarinnar heldur líka lýðræðinu því sameiginlegur opinber rekstur kerfanna skiptir máli fyrir velsæld í samfélaginu. Einkavæðing í þessum kerfum hefur kennt okkur að þjónustan verður dýrari og lakari. Samkvæmt niðurstöðum Hagstofu Íslands sem komu fram í skýrslu Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins í maí á þessu ári áttu um 24% landsmanna erfitt með að ná endum saman og 51,5% meðal einstæðra foreldra. Hlutfall þeirra sem ekki gátu mætt 180.000 kr. óvæntum útgjöldum var 22,5% árið 2021, en var einnig mun hærra meðal einstæðra foreldra, eða 41,1%.“

Þá segir hann í pistlinum að niðurskurður og uppsagnir opinberra starfsmanna sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur standi fyrir bitni aðallega á störfum kvenna sem starfa í grunnþjónustunni og í framlínunni. Það sé varla neitt jafnrétti né réttlæti til í því.

„Þá stendur ríkisstjórn Katrínar fyrir því að kvennastéttir í framlínustörfum í grunnþjónustunni missi vinnuna vegna niðurskurðar og uppsagna. Í umsögn BSRB segir um niðurskurð ríkisstjórnarinnar í frumvarpi til fjárlaga 2024: „Alls nemur niðurskurðurinn um 8 milljörðum króna í frestun framkvæmda og um 9,6 milljörðum króna í rekstrarútgjöldum sem á fyrst og fremst á að nást með uppsögnum og starfsmannaveltu. […] Í jafnréttismati frumvarpsins kemur fram að lækkun launakostnaðar ríkisins mun bitna á konum fremur en körlum enda eru þær um tveir þriðju hlutar starfsfólks ríkisins. Konur eru einnig í meiri hluta þeirra starfa sem mun fækka vegna stafvæðingar.““

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí