Þórunn Ólafsdóttir segir í pistli sem hún birtir á Facebook að margir fjölmiðlar á Íslandi tali máli gerandans í fréttum af Palestínu. Hún segir að þetta vandamál sé ekki bundið við einn ákveðinn fjölmiðil en nefndir þó dæmi um nýlega fyrirsögn á RÚV, „Yfir 4.000 látin á Gaza frá upphafi stríðsins“. Þórunn bendir á að auðvitað voru þessi börn drepin og því rangt að tala um að þau hafi látist. Með því einungis verið að gera lítið úr gjörðum Ísraelsmanna.
Hér fyrir neðan má lesa pistil hennar í heild sinni.
Skipta orð máli?
Eitt það fyrsta sem ég lærði í Palestínu var orðræðan og valdið sem felst í því að stjórna henni. Svo margt sem ég hafði lítið spáð í áður en ég fékk mikilvæga kennslustund frá palestínskum friðarsinnum um vægi orðanna. Hvernig þau geta verið vopn kúgaranna, fái þeir að stjórna orðanotkun um fólkið sem þeir vilja hafa vald yfir. Þannig taka þeir sér vald, þannig draga þeir úr mennsku þeirra sem níðst er á og þannig vinna þeir sér fylgi.
Ég er alls ekki að tala um að hinn eða þessi íslenski fjölmiðill sé svo spilltur eða glataður eða að fólkið þar sé ekki fagfólk að gera sitt besta. Þetta snýst ekki um það. Íslenskir fjölmiðlar eru undirfjármagnaðir, fólkið sem vinnur þar hefur alveg örugglega mismikla reynslu og þekkingu á málefnum Palestínu, en ég held að fæst þeirra séu viljandi að tala máli gerandans í því sem gengur á fyrir botni Miðjarðarhafs. Þannig er það samt oft, því miður. Og það á sér miklu flóknari skýringar en hvernig einstaka fjölmiðlar á þessu litla skeri starfa.
Orðræðan sem ég er að setja út á hér á sér miklu dýpri rætur og er miklu lúmskari og rótgrónari en við flest erum meðvituð um.
Ísrael er nefnilega ekki bara í yfirburðastöðu gagnvart Palestínu á vígvellinum, heldur líka þegar kemur að upplýsingagjöf. Við lesum reglulega um “aðgerðir ísraelska hersins” sem eru ekkert annað en árásir. Jafnvel stríðsglæpir. En í fréttatilkynningum frá hernum, sem berast stórum fjölmiðlum og fréttaveitum, er slíkt kallað “military operation”. Sem hljómar eins og eitthvað daglegt brauð. Herinn hefur algjört skilgreiningarvald yfir eigin starfsemi og kemst yfirleitt upp með að tala um hana á þann hátt sem kemur best út fyrir Ísrael.
Viðbrögð utanríkisráðherra á dögunum, þar sem hann hreinlega móðgast yfir því að árás Ísraelshers á palestínskar flóttamannabúðir sé kölluð árás, er sprottinn beint innan úr því valdi sem Ísraelsríki hefur yfir umræðunni.
Dæmi.
Í Ísrael er herinn kallaðir Israeli Defence Forces (IDF). Í Palestínu er talað um Israeli Occupation Forces (IOF).
Mörgum finnst eflaust hlutdrægni að tala um IOF þegar herinn vill jú láta kalla sig IDF. En er IOF efnislega rangt? Er ekki Palestína einmitt hernumin af Ísrael? Hvers vegna hefur þá innrásarherinn skilgreingingarvald yfir stöðunni út á við? Hverju er herinn að verjast inni í öðru, fullvalda ríki?
Hvers vegna eru morð orðnar “aðgerðir” ef herinn segir það? Börn látast af slysförum eða veikindum. Þegar þau eru sprengd í loft upp eða skotin á færi, þá eru þau drepin.
Það er hluti af afmennskun palestínsks fólks að tala um slík dráp eins og þau séu bara gangur lífsins.
Það eru ekki náttúruhamfarir eða slys sem eru að svipta palestínsk börn lífinu fyrir framan nefið á okkur núna. Það eru menn sem sitja á skrifstofum sínum og gefa skipanir um að þau skuli drepin og hafa svo í þokkabót skilgreiningarvald yfir því hvernig sagt er frá gjörðum þeirra.
Meira en 4000 börn hafa verið drepin af innrásarhernum síðastliðinn mánuð. Ef telja á frá upphafi stríðsins (sem er ekki stríð heldur innrás/hernám) þá þarf að bæta einhverjum núllum við töluna, því Ísraelsher hefur verið að drepa palestínsk börn samfleytt frá árinu 1948.
Þetta eru mjög einföld skrif um flókið fyrirbæri. En í grunninn snýst þetta um hverjum við ætlum að leyfa að segja söguna. Þar gegnir fjölmiðlafólk ótrúlega veigamiklu hlutverki og mig langar að biðla til þeirra sem miðla þessum hryllingi til okkar almennings að vanda sig. En líka ykkar hinna. Lesið upplýsingarnar með það í huga hvaðan þær koma, hver tilgangur þeirra er og hverjum það þjónar að matreiða þær eftir uppskrift kúgaranna. Fingraför þeirra eru oft óljós, áreiðanlegir miðlar hafa jafnvel miðlað þeim í millitíðinni og þær eru kannski efnislega réttar. En þær eru sannarlega ekki hlutlausar því orðin geta líka verið vopn.