Ysta hægrið sigrar Holland

Flokkarnir að baki ríkisstjórninni sem féll í vor í Hollandi guldu afhroð í kosningunum. Flokkarnir fjórir höfðu samanlagt 77 þingsæti en uppskáru nú aðeins 41 sæti, töpuðu 36 sætum. Lýðræðisflokkurinn, stóri hefðbundni hægri flokkurinn, tapaði miklu og er ekki lengur lang stærsti flokkurinn heldur sá þriðji stærsti, fór úr 34 þingsætum í 24. En hinir flokkarnir töpuðu líka miklu. Demókratar 66, sem voru næst stærsti flokkurinn á þimngi, fara úr 24 sætum í 9. Hinir tveir flokkarnir, sem báðir eru kristilegir, fara samanlagt úr 19 sætum í 8.

Sigurvegar kosninganna eru fyrst og fremst tveir. Frelsisflokkur Geert Wilders fékk 24,5% atkvæða og 37 þingmenn, mesta fylgi sem flokkurinn hefur fengið og hann er nú lang stærsti flokkurinn á þingi. Og þegar sagt er Frelsisflokkur Geert Wilders þá er það bókstaflegt, Wilders er eini félaginn í flokknum og rekur hann nánast eins og fyrirtæki frekar en fjöldahreyfingu. Hinn stóri sigurvegarinn er Pieter Omtzigt, fyrrum þingmaður Kristilegra demókrata sem stofnaði sinn eigin flokk í sumar, Nýjan samfélagssáttmála, og tók með sér nítján aðra þingmenn. Omtzigt tilheyrði þeim hluta Kristilegra demókrata sem voru efins um samruna Evrópusambandsins og Wilders er alfarið á móti sambandinu, vill Holland út úr því. Þetta voru því ekki góðar kosningar fyrir ESB, sigurvegararnir eru stjórnmálamenn sem eru í andstöðu við sambandið og þróun þess.

Mið-vinstrið braggaðist aðeins með sameiginlegu framboði Verkamannaflokksins, sem eitt sinn var burðarflokkur í hollenskum stjórnmálum en hrundi eftir Hrun, og Vinstri grænum. Saman höfðu flokkarnir 17 þingmenn en náðu að landa 25. Þetta er bati en Verkamannaflokkurinn var einn með 38 þingmenn 2012 og 52 þingmenn 1986. Sósíalistaflokkurinn missti þingmenn, fór úr 9 þingmenn í 5. Flokkur dýranna, annar flokkur umhverfissinna tapaði líka fylgi. Ef við tökum þetta mið-vinstri og umhverfissinna saman þá gerðist ekkert, þingmennirnir fóru úr 32 í 33.

Sveiflan var því fyrst og fremst frá hefðbundnu hægri og mið-hægri yfir til popúlíska hægrisins og ysta hægrisins. Borgarhreyfing bænda, annar popúlískur hægri flokkur vann líka á. Samanlögð fylgissveifla til þessara þriggja flokka, Frelsisflokksins, Nýs samfélagssáttmála og Borgarhreyfingar bænda, er 43 þingmenn um 29% af þingheim.

Holland er því að ganga í gegnum umturnun stjórnmálakerfis eftirstríðsáranna. Hinn hefðbundni sósíaldemókratíski flokkur var þegar fallinn og nú missti hefðbundna hægrið forystuna til hins popúlíska hægris. Stærsti flokkurinn á hollenska þinginu vill út úr ESB, banna Kóraninn og reka innflytjendur úr landi.

Myndin er af Geert Wilders, eina félaga Frelsisflokksins, fagna sigri.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí