Allir á Íslandi að verða ólæsir eins og börnin: „Ættum að prófa að slökkva á sjónvarpinu af og til“

Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur segir að það sé ekki bara börnin sem séu að verða ólæs, heldur í raun allt samfélagið. Hann bendir á að bókasala hafi dregist saman gífurlega á örfáum árum og því sé ekki hægt að kenna unglingum um. Þannig séu fullorðnir sem hneykslast á lestri barna í raun að sjá flísina í auga náungans en ekki bjálkann í sínu eigin auga.

Mér finnst mikilvægt að halda því til haga í tengslum við PISA-málin að það er ekki bara lestur ungmenna sem er á undanhaldi heldur ALLUR bóklestur. Og raunar allur lestur sem er ekki sífelldri truflun undirorpin, stöðugu pípi og tilkynningum; allur lestur langra samfelldra hugsana sem kalla ekki á tafarlausa afstöðu heldur meltandi íhugun. Á Íslandi dróst bóksala saman um 36% á árunum 2008 til 2018 – það er ekki lestur ungmenna heldur lestur samfélags. Þrjátíuogsex prósent. Það er truflað. Það eru ekki börnin sem eru að verða ólæs, heldur við öll,“ segir Eiríkur Örn á Facebook.

Sökudólgurinn er svo flestum okkar augljós. „Tækin eru að mörgu leyti kraftaverkavélar – í því felst aðdráttarafl þeirra – en þau hafa þann stóra ókost að þau veita öllum mögulegum aðilum lítt heftan aðgang að vitund okkar. Útidyrnar standa opnar jafnt fyrir frænkum og frændum, pólitískum þrýstihópum, athyglissjúkum jólabókaflóðshöfundum, kaffistofugrínistum og kókakólalestinni. Allan liðlangan daginn. Við slíkar aðstæður er ekkert skrítið að fólk eigi erfitt með að einbeita sér,“ segir Eiríkur Örn og heldur áfram:

„Ég árétta: ég er ekki að tala um tækjanotkun barna heldur tækjanotkun okkar allra. Það má vel vera að það megi „kenna“ börnum að nota tæki betur en þá skortir bæði fyrirmyndir og fordæmi. Þið megið alveg kalla mig trúfífl en ég held að það hafi enn ekki verið fundið upp fullkomnara tæki til hugsunar en pappírsbókin (og það segi ég án þess að fordæma önnur síðri tæki, sem hafa sína kosti líka). Og það hafa enn ekki verið fundnar upp aðstæður til hugsunar sem toppa frið og ró. Ofurtölvurnar sem við göngum með í vasanum eru ekki síst hannaðar til þess að rjúfa frið og ró – markaðsáætlun margra stærstu fyrirtækja í heiminum stendur beinlínis og fellur með því að geta fangað athygli þess sem heldur á síma.“

Þó ekkert sé athugavert við að hluta á hljóðbækur, þá bendir Eiríkur Örn á að það er einfaldega ekki það sama og lesa bókina. „Sumir segja að lausnina sé að finna í hljóðbókinni – að þar aukist „lestur“ – og mér þykir í sjálfu sér vænt um hana líka en ekki forsendurnar að með því að hlusta á hljóðbók getum við LÍKA gert annað, hvort sem það er að vaska upp eða sofna, því þess lags lestur er bara annars konar æfing í verklegum athyglisbresti. Og ég held að við (og þá tel ég svo sannarlega sjálfan mig með) þurfum eitthvað annað,“ segir Eiríkur Örn.

Í raun er sama lausn við þessum vanda, óháð aldri. „Einsog hver önnur sex ára börn þurfum við líklega að læra (aftur) að sitja kyrr og einbeita okkur að því sem við erum að gera og – sem mestu skiptir – að njóta þess að lesa alvöru bókmenntir. Að stækka, þroskast, læra, gráta, reiðast og gleðjast – og láta ögra okkur. Það þykir orðið afrek á við að ná mettíma í maraþoni að klára tvær-þrjár bækur á mánuði – af því fólk hafi ekki tíma – og minnir mig á orð sem ég held að Árni Bergmann hafi einhvern tíma látið falla, á dögunum fyrir internet, að þeir sem héldu að þeir hefðu ekki tíma til að lesa bækur ættu að prófa að slökkva á sjónvarpinu af og til. Þau rök má hæglega heimfæra á allar þessar athyglisglepjandi auglýsingamaskínur.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí