Stóriðjufyrirtækin fjögur sem nýta vatnsaflsorku Íslendinga stórgræddu í fyrra, skiluðu samtals 83,7 milljörðum króna í hreinan hagnað. Þetta er mun meiri hagnaður en árið áður, og er ástæðan fyrst og fremst orkukreppan í Evrópu og viðskiptabann á Rússland, sem þrýsti upp verði á áli og járnblendi. Hagnaðinn má því að mestu rekja til þess að raforka á Íslandi hækkaði ekki á sama tíma og verðið rauk upp annars staðar. Segja má því að fyrirtækin hafi fengið til sín aukinn auðlindaarð í fyrra, af auðlind landsmanna.
Það er mikið rætt um ógnargróða bankanna á Íslandi en fjórir bankar, Íslandsbanki, Landsbanki, Arion og Kvika, skiluðu 71,9 milljörðum króna í hreinan hagnað í fyrra. Stóriðjufyrirtækin fjögur, Norðurál, Alcoa, Rio Tinto og Elkem, skiluðu því 11,8 milljörðum króna meiri hagnaði en bankarnir.
Til samanburðar var hreinn hagnaður fjögurra stærstu útgerðar-hringanna um 61,2 milljarðar króna. Það er Brim/Útgerðarfélag Reykjavíkur, Samherji/Útgerðarfélag Akureyringa/Síldarvinnslan/Vísir/Bergur-Huginn, Ísfélagið/Rammi og Vinnslustöðin.
Þrátt fyrir mikinn hagnað stóriðjufyrirtækjanna borga þau lítinn skatt. Samanlagður tekjuskattur þeirra var aðeins 15,7% í fyrra. Meginástæðan er sú að Alcoa borgaði engan skatt í fyrra frekar en áður.