Óhætt er að segja að enginn flokkur á Íslandi sé í dag eins hrifinn af Evrópusambandinu og Viðreisn. Það er því óneitanlega kaldhæðnislegt þegar aðstoðarmaður þingflokks Viðreisnar kvartar sáran undan innleiðingu reglugerðar ESB og kallar forræðishyggju.
Það gerði þó Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson, sem einnig er varaþingmaður sama flokks, í gær á Twitter. Þar deilir hann frétt um að sala mentólsígaretta verði einungis leyfð í fjögur ár í viðbót og skrifar: „Ég vann í sjoppu. Börn reykja ekki mentólsígarettur, fullorðnar konur reykja mentólsígarettur. Hættið þessari forræðishyggju!“
Vafalaust eru margir sammála honum enda hefur hann nokkuð til síns máls, þeir sem þekkja til barna og reykingavenja þeirra vita að þau reykja sjaldnast Salem. Það gera hins vegar konur á besta aldri.
En í athugasemdum við tístið þá er honum bent á að þessa bölvuðu forræðishyggju má rekja til ESB. Þessar reglur séu beinlýnis afleiðing af innleiðingu reglugerðar ESB. Annar pólitískur starfsmaður, Kári Gautason, aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, hjólar í Dagbjart og skrifar: „Kvartanir berist til Ursula.von.der.leyen@hættuþessuröfli.eu“