Ef viðræður um kjarasamninga ganga eins vel og verið hefur undanfarið, stefnir í undirritun innan nokkurra vikna.
Þetta sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í sjónvarpsþættinum Rauða borðið á Samstöðinni í kvöld.
Nánast einsdæmi er ef samið verður áður en fyrri samningar renna út eins og stefni í. Verið er að ræða hófstilltar kjarahækkanir að sögn Sólveigar Önnu, flata krónuhækkun en einkum ítarlegar tillögur um tilfærslur, barnabætur, vaxtabætur, húsnæðisbætur og úrbætur fyrir leigjendur.
„Við teljum að þetta módel okkar, framsett með þessum hætti, geri að verkum að verðbólga og vextir geti lækkað mjög hratt,“ sagði Sólveig Anna í þættinum.
Raunhæft er að áætla að samið verði til fjögurra til fimm ára að sögn Sólveigar Önnu og yrði því um gríðarstóran áfanga að ræða í efnahagslífi þjóðarinnar. Efling mun eftir því sem fram kom láta sér lynda 26.000 króna launahækkun á mánuði fyrsta kastið að því gefnu að ekki verði farið yfir rauð strik sem lúta að verðbólgu og vöxtum.