Á íbúafundi Grindvíkinga, sem haldin var í Laugardalshöll nú síðdegis og sýndur í beinni á Youtube, fengu almennir Grindvíkingar að tjá skoðun sína, lýsa áhyggjum eða spyrja ráðamenn spurninga. Augljóst er að eitt helsta áhyggjumál margra snýst um hvort einhverjar bætur fáist fyrir nú verðlausar fasteignir. Margir í raun óska þess helst að hús þeirra fari undir hraun, því þá er þessi mikla óvissa talsvert minni.
Fyrst til að fá orðið var Valgerður Jennýardóttir, búsett í Grindavík í 21 ár, en hún lýsti þessu svo: „Ég er hjartanlega sammála henni Bryndísi, að ég eiginlega grenjaði því húsið mitt er ekki að fara undir hraun. Og mjög fúl að það ætti að bæta varnargarðana við húsið mitt, eða þar sem ég bjó. Ég myndi vilja vera borguð út.“
Hún benti svo einnig á að þó hún væri á báðum áttum með að vilja búa í framtíðinni í Grindavík eða ekki, þá væri ekki hægt að hafa ung börn í svona miklu limbó til lengdar.
„Við hjónin erum með fjögur börn og erum búin að sigta út húsnæði til langtíma, því eitt sem mér finnst gleymast: við verðum að setja börnin okkar í fyrsta sæti. Við getum ekki haft þau í limbói. Við flúðum á Kirkjubæjarklaustur til tengdaforeldra en komum til baka fyrir rétt rúmlega viku síðan. Þannig að börnin mín, sem eru á grunnskólaaldri, voru að byrja í grunnskóla númer tvö. En ég á líka barn á leikskólaaldri, en ég sé ekkert fram á að hann sé að komast í leikskóla,“ sagði Valgerður.