Ísland geri sig samsekt af þjóðarmorði með seinagangi: „Dapurlegur vitnisburður um ríkisstjórn Katrínar“

Með því að koma í veg fyrir að fólki sé bjargað frá hörmungunum í Palestínu, eða draga lappirnar, þá sé ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur í raun að gera Ísland samsekt af þjóðarmorðinu þar. Þetta segja samtökin Solaris í yfirlýsingu um stöðu Palestínumanna á Íslandi. Allir skilja að maður sem horfir upp á morð án þess að lifta fingri, á heima bak við lás og slá. Á það sama ekki við þegar þjóð er myrt?  

Það kemur líklega fáum á óvart að Palestínumenn lenda enn í því á Íslandi að þeim sé neitað um vernd. Það vekur þó athygli að um 100 manns hafi nýlega fengið samþykkta fjölskyldusameiningu fyrir fjölskyldumeðlimi á Gaza. Þetta fólk er þó enn þar í lífshættu, út af seinagangi og sinnuleysi íslenskrar stjórsýslu, að sögn Solaris-samtakanna.

„Þessa dagana berast Solaris reglulega fregnir af því að flóttafólk frá Palestínu sem sótt hefur um alþjóðlega vernd á Íslandi sé neitað um vernd hér á landi. Þá eru íslensk stjórnvöld einnig að brottvísa palestínsku flóttafólki úr landi og hafa verið að gera síðustu daga og vikur. Börn og fullorðnir frá Palestínu búa við yfirvofandi brottvísun.

Á Íslandi er einnig hópur af Palestínufólki sem hefur fengið samþykkta fjölskyldusameiningu fyrir fjölskyldumeðlimi á Gaza. Í krafti slíkrar fjölskyldusameiningar hafa um 100 einstaklingar fengið dvalarleyfi á Íslandi á síðustu vikum og mánuðum. Þau eru hins vegar öll enn á Gaza. Þá bíða fleiri einstaklingar svara um slíka fjölskyldusameiningu og enn aðrir hafa fengið neitum um að fá fjölskyldumeðlimi til sín frá Gaza því einstaklingarnir falla ekki undir þröngar reglur um fjölskyldusameiningu,“ segir í yfirlýsingu.

Það má því segja að vegna þessa þá bætist við enn ein ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin mun líklega ekki fá góða einkunn hjá sagnfræðingum framtíðarinnar. „Það er afar dapurlegur vitnisburður um ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að staða Palestínufólks á Íslandi sem hingað hefur komi í leit að skjóli og vernd fyrir sig og fjölskyldu sína sé með þeim hætti sem hér er lýst á sama tíma og kerfisbundnar þjóðernishreinsanir standa yfir á palestínsku þjóðinni á Gaza og á Vesturbakkanum og ísraelsk stjórnvöld standa fyrir skipulagðri eyðileggingu á palestínsku landsvæði í þeim tilgangi að taka það yfir. Um er að ræða enn einn áfellisdóminn yfir ríkisstjórninni þegar kemur að málefnum fólks á flótta og algjört sinnuleysi gagnvart því þjóðarmorði sem nú stendur yfir,“ segja samtökin og bæta við:

„Stjórn Solaris ítrekar áskorun sína frá 20. nóvember 2023 og hvetur íslensk stjórnvöld til þess að grípa til markvissra aðgerða og veita öllum þeim umsækjendum um alþjóðlega vernd sem koma frá Palestínu og eru stödd hér á landi vernd án tafar og stöðva allar brottvísanir á palestínsku flóttafólki frá Íslandi. Þar að auki eru stjórnvöld hvött til þess að liðka fyrir frekari fjölskyldusameiningu Palestínufólks með því að rýmka reglurnar og beita sér fyrir því að koma þeim einstaklingum sem hafa fengið samþykkta fjölskyldusameiningu frá Gaza og til Íslands strax. Áður en það verður of seint. Íslensk stjórnvöld hafa áður sýnt að hægt sé að grípa til sérstakra aðgerða til þess að flýta afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd og fjölskyldusameiningu og eru hvött til þess að gera hið sama nú fyrir palestínsku þjóðina.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí