Ógeðfelld jólakveðja frá vinum Samherja dropinn sem fyllti mælinn

Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Heimildinni, segist þurfa að búa við stanslaust áreiti frá tveimur Pálum, öðrum Steingrímssyni og hinum Vilhjálmssyni, en báðir eru í raun að áreita hann fyrir hönd útgerðarfyrirtækisins Samherja. Hann opnar sig um áreitið á Facebook en það má segja að dropinn sem fyllti mælinn var ógeðfelld jólakveðja sem Aðalsteinn fékk frá öðrum þeirra. Þeir saka Aðalstein um að hafa eitrað fyrir skipstjóra Samherja. Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur verið mjög gagnrýnd fyrir hörku í Samherjamálinu öllu en nú greinir Aðalsteinn frá því að það sama lögregluumdæmi hefur engan áhuga á að rannsaka þær ítrekuð hótanir sem honum hefur borist frá vinum Samherja.  

Hér fyrir neðan má lesa pistil Aðalsteins í heild sinni.

Eitt augnablik í desember gleymdi ég því að tveir Pálar, Steingrímsson og Vilhjálmsson, hafa undanfarin ár haldið á lofti samsæriskenningu um að ég sé glæpamaður fremur en blaðamaður, sem eitri bjór á Akureyri í þeim tilgangi að komast yfir síma. Ég gleymdi þessum ásökunum alveg fram á Þorláksmessu þegar annar þeirra sendi mér jólakveðju í tölvupósti; tengil á bloggfærslu hins þar sem nýtt lag í samsæriskenningunni birtist. Þar var því haldið fram að ég væri vanhæfur til að fjalla um Samherjamálið í Namibíu af því ég væri til rannsóknar í öðru máli hér á Íslandi.

Til útskýringar, sem ég er með hálfgert óbragð yfir að þurfa yfir höfuð að tala um, felur sú kenning í sér hugsanlega hafi verið nektarefni af innanhúslögfræðingi Samherja í síma sjómannsins og því sé ég til rannsóknar fyrir stafrænt kynferðisbrot gagnvart henni, vegna þess að ég fjallaði um skæruliðadeild Samherja. Fyrst umrædd kona sé sakborningur í rannsókn á mútugreiðslum Samherja til ráðamanna í Namibíu sé ég vanhæfur til að fjalla nokkuð meira um það mál. Ég veit ekki hvað hefur verið í síma Páls, enda hef ég ekki séð hann eða skoðað, en ég veit að þessi samsæriskenning er röng. Ekkert slíkt efni fannst við rannsókn lögreglu og samkvæmt því sem mér var kynnt þegar ég var yfirheyrður í málinu er ég ekki til rannsóknar fyrir stafrænt kynferðisbrot. Sakarefnið sem lögreglan á Norðurlandi eystra hefur verið með til rannsóknar síðustu misseri er einfaldlega fréttaflutningur,  fréttirnar sem ég skrifaði um Skæruliðadeild Samherja (sjá hér: https://heimildin.is/grein/13465/).

Nokkrum dögum fyrir Þorláksmessu hafði annar maður, sem er í sömu stöðu og ég, til rannsóknar hjá lögreglu vegna fréttaflutnings, haft samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu til að spyrjast fyrir um kæru sem við lögðum báðir fram gegn öðrum þessara Pála. Af því að hann hafði skömmu áður sent okkur og einum til viðbótar tölvupóst þar sem hann sagðist neyðast til þess að „grípa til annara ráða til þess að stoppa ykkur.“ Þetta var bara nýjasta dæmið um þar sem hann hafði í einhverskonar hótunum við okkur, en í fyrsta sinn sem slík hótun frá honum barst skriflega beint til mín. Það var því ekki annað í stöðunni en að tilkynna það lögreglu.

Til að sýna lögreglu fram á að þetta væri ekki einangrað atvik eða hótun sem sett var fram í einhverri geðshræringu, bentum við á sem dæmi að nokkru áður hafði þessi sami Páll talað mjög opinskátt um hvaða skotvopn hann myndi vilja nota á okkur. Það var í athugasemdum á Facebook í umræðum um „andstæðinga“ Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja.  Nú reynir Páll að halda því fram að þessum ummælum hafi alls ekki verið beint að okkur og grínast með það að blaðamenn samsvari sér greinilega með meindýrum, enda hafi hann notað orð eins og „hælbítar“ og „meindýr“ en ekki „blaðamenn“ eða „Aðalsteinn“.

„Við getum verið stolt af því að vinna hjá Máa,“ skrifað vinkona hans í þessum Facebook-þræði og fékk svarið frá Páli um að engir hælbítar fengju að hafa áhrif á það. Hælbítar væru meindýr, sem best væri að skjóta. Síðan birti hann mynd af byssunni sem hann vildi nota. Samhengið er auðvitað öllu fólki nálægt meðalgreind ljóst. Orðin beindust að þeim sem Páll upplifir sem andstæðinga Samherja. Og Páll virðist ekki hafa verið iðnari við nokkuð annað í lífinu en að reyna að sannfæra fólk um að við, blaðamennirnir, séum einmitt það. En kannski er einhver sem trúir að þarna hafi farið fram umræða um eiginleg meindýr á umræðuþræði um Samherja.

En, fyrirspurninni sem beint var til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir jól var hins vegar svarað með þeim hætti að málið hefði verið sent til rannsóknar norður á Akureyri. Þaðan barst ekki eiginlegt svar heldur kom þess í stað tilkynning: málið var fellt niður. Ég fékk sjálfur aldrei tækifæri til að gefa skýrslu eða benda á samhengi hótunarinnar, né að koma öðru á framfæri en þessu skjáskoti af Facebook. Það eina sem hefur gerst síðan ég kvittaði undir eitthvað eyðublað á lögreglustöðinni við Hverfisgötu þann 5. september árið 2022 er að málið var sent norður án þess að ég fengi að vita það og þar framkvæmdi lögreglan rannsókn sem stóð yfir í innan við hálftíma.

Niðurstaðan hjá lögregluembættinu er því mjög einföld: það má hóta, sé það gert rétt, en það má ekki birta fréttir um þetta fólk. „Við ætlum ekki að leyfa blaðamönnum að komast upp með að fara í gegnum síma einhvers fólks,“ sagði saksóknari við lögregluembættið fyrir norðan þegar ég lét reyna á lögmæti lögreglurannsóknar á okkur vegna fréttaflutnings. Sú rannsókn hefur staðið yfir í tæp tvö ár.

Til að vernda andlegu líðan mína, og fjölskyldu minnar, hef ég eftir besta megni reynt að leiða Pálana tvo hjá mér. Mig óraði ekki fyrir því árið 2019 þegar ég vann með samstarfsfólki mínu að afhjúpun um mútugreiðslur Samherja í Namibíu, að fjórum árum seinna myndu jólin enn litast af leðjunni sem samherjar þeirra reyna að ata okkur í örvæntingarfullri tilraun til að draga athyglina frá því sem afhjúpaðist í Samherjamálinu. Hvenær mun það enda? Nú þegar eru tíu manns í fangelsi í Namibíu vegna þess að hafa tekið við peningum frá Samherja og reynt svo að þvætta þá. Það dugir ekki til. Kannski er það ég sem þarf að átta mig á að þessar röngu ásakanir og ávirðingar eru komnar til að vera. Ég veit samt ekki hvernig ég ætla að takast á við það.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí