Ríkisstjórnin hefur rætt að greiða Grindvíkingum út eigið fé þeirra í íbúðarhúsnæði. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún flutti skýrslu um ástandið í Grindavík á Alþingi í dag.
Verið er að semja frumvörp um launastuðning og uppkaup fleiri íbúða fyrir Grindvíkinga. Tilfærsla kaupstaðarins, að byggja upp nýja Grindavík kemur einnig til álita að sögn forsætisráðherra.

Katrín sagði ánægjulegt að samstaða væri um stuðninginn á þingi. Þá hrósaði hún árvekni vísindamanna og almannavarna sem hefði verið var ótrúleg, ekki síst hve vel hefði verið staðið að rýmingu í bæði skiptin sem alvarlega hætta steðjaði að bænum.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, tók undir með Katrínu um mikilvægi samstöðu um stuðning en taldi að hækka yrði leigustuðning við Grindvíkinga. Best væri að Alþingi myndi sammælast um einföld atriði og skipuð þverpólitísk nefnd um framhaldið, en meirihlutaflokkarnir virtust ætla að halda málinu innan eigin raða.