„Nú finnst mér að stjórnvöld þurfi að taka af skarið. Hætta að tala eins og allir vilji snúa aftur til Grindavíkur. Það er ekki svo – við heyrðum það í fréttum kvöldsins – og við getum auðvitað vel skilið hvers vegna.“
Þetta segir Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þjóðfræðingur og fyrrverandi Alþingismaður, á Facebook. Að hennar mati er kominn tími til að ríkisstjórnin leysi Grindvíkinga úr prísund óöryggis, og hætti að gera ráð fyrir framtíðarbyggð í Grindavík. Mikilvægast sé að að hjálpa Grindvíkingum að byrja upp á nýtt utan bæjarins.
„Svæðið er stórhættulegt. Sprungur opnast fyrirvaralaust og jörðin gleypir fólk. Enginn hiti á húsum, ekkert rafmagn, svo eignir liggja undir skemmdum á næstu sólarhringum. Innviðir í lamasessi. Enginn veit hvenær gýs næst, hvenær næsta skjálftahrina setur allt úr skorðum,“ segir Ólína og heldur áfram:
„Ég er hrædd um að nú sé tímabært – eftir allt sem á undan er gengið – að leysa bæjarbúa úr prísund óvissu og óöryggis, þá sem það kjósa. Hætta að tala um framtíðarbyggð í Grindavík eins og hún sé sjálfgefið markmið. Það er ekkert sjálfgefið eins og staðan er. Eldormurinn sem hlykkjast í iðrum jarðar undir Reykjanesi hefur rumskað og það getur tekið hundrað ár fyrir hann að sofna aftur.“
Ólína leggur áherslu á að ríkisstjórnin þurfi að hjálpa Grindvíkingum með því að festa kaup á íbúðum. „Nú þarf að kaupa viðlagasjóðshús og festa kaup á íbúðum. Gefa þeim sem það kjósa (líklega drjúgum meirihluta Grindvíkinga) kost á því að byrja upp á nýtt utan Grindavíkur. Þung verða sporin – en þannig er það.“