Það er ekki bara vítiseldar úr iðrum jarðar sem plaga Grindvíkinga um þessar mundir. Örsmár hópur landsmanna reynir sitt best við að plokka síðustu aurana af íbúum, sem hafa flestir misst allt sitt á síðustu vikum. Áður hefur verið bent á stjórnendur lífeyrissjóða, sem hafa barist eins og ljón gegn því að Grindvíkingar fái að sleppa við borga vextina á nú verðlausum eignum sínum. En svo er leigufélagið Alma, sem rukkar nú fyrir afnot af íbúðum, á hamfarasvæði.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, bendir á þetta í pistli á Facebook. „Svona í ljósi þess að Alma leigufélag sendi öllum leigjendum sínum í Grindavík greiðsluseðil fyrir janúar mánuð. Og segja ekki koma til greina að gefa þær greiðslur eftir, sem samskipti Ölmu við leigjendur staðfesta. Framkvæmdastjóri Ölmu leigufélags segir það vera bæði ósanngjarnt og óheiðarlegt að halda því fram að félagið hafi ekki lagt sitt af mörkum til að standa með og styðja við íbúa Grindavíkur,“ segir Ragnar.
Hann segir að meintur stuðningur Ölmu sé yfirleitt afleiðing af opinberum þrýstingi. Ekki sé hefð fyrir því að kalla slíka hegðun „góðgerðarstarf“. Ragnar segir: „Leigufélagið Alma þverneitaði að losa fimm manna fjölskyldu úr Grindavík undan leigusamningi eftir að henni bauðst stærri og hentugri íbúð. Þegar vakin var athygli á málinu opinberlega skiptu stjórnendur félagsins um skoðun og ákváðu að gefa eftir. Meintur stuðningur eigenda Ölmu til Grindvíkinga nær ekki lengra en það að ekkert fæst í gegn nema vakin sé athygli á því opinberlega og sú umræða sé nægilega neikvæð. Það hlýtur að vera einhver sérstakur staður fyrir fólk sem hagar sér ítrekað með þessum hætti eftir að jarðvist þess líkur.“