Það virðist stefna í að mál sem Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur barist fyrir frá því að jarðhræringar hófust verði loksins að raunveruleika. Þrátt fyrir að nær allir Íslendingar hafi viljað rétta Grindvíkingum hjálparhönd meðan þessar hörmungar ganga yfir, þá var einn hópur sem vildi ekki gefa þumal.
Sá hópur stýrir lífeyrissjóðum og hefur barist eins og ljón gegn því að Grindvíkingar fái nokkurn minnsta afslátt af lánaokrinu sem þjóðin öll þarf að þola. Krafa Ragnars var lengst af ekki meiri en að fella niður vexti á húsnæðislánum Grindvíkinga, rétt á meðan að hættan væri mest. Menn eins og Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, gátu ekki hugsað sér það og völdu frekar að ráðast á Ragnar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tekur þetta saman í pistli sem hún birtir nú í kvöld. „Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, ásamt Einari Hannesi Harðarsyni, formanni Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur hafa vikum saman barist fyrir því að lífeyrissjóðirnir, m.a. Gildi, kæmu til móts við Grindvíkinga sem eru með húsnæðislán hjá sjóðunum, með því að fella niður vexti og verðbætur. Viðbragð stjórnenda Gildis við þessum sjálfsögðu réttlætiskröfum var að ásaka þremenningana um ofbeldi og ógnandi framkomu við starfsfólk Gildis vegna friðsamra mótmæla sem að haldin voru í móttöku skrifstofu Gildis og þeir höfðu skipulagt. Þessar grófu ásakanir stjórnenda Gildis voru að sjálfsögðu uppspuni frá rótum. Svo kurteislega sé tekið til orða,“ segir Sólveig Anna.
Tilefnið að þessum skrifum er, líkt og fyrr segir, að nú loksins munu Grindvíkingar losna við vextina. „Ég rifja þetta upp vegna þess að ég heyrði ekki betur en að í kvöldfréttum kæmi fram ríkisstjórnin léti eins og það yrði henni að þakka ef að lífeyrissjóðirnir kæmust loksins að réttri niðurstöðu og stæðu með fólkinu í Grindavík. Sannleikurinn er aftur á móti sá að ef hinir háu lífeyrissjóðs-herrar komast nú loksins að því að þeir geti liðsinnt samlöndum sínum sem eru í eins erfiðri stöðu og hægt er að hugsa sér á að þakka Herði, Ragnari Þór og Einari Hannesi fyrir að hafa staðið þessa vakt frá fyrsta degi og tekið slaginn. Fyrir það þurftu þeir m.a. að þola lygar og rógburð frá þeim sem að hefðu frekar átt að einbeita sér að því að liðsinna Grindvíkingum. Frábærir menn sem að hafa barist og beitt kröftum sínum fyrir réttlátan málstað. Það er tímabært að stjórnendur Gildis biðji þá afsökunar á rógburðinum,“ segir Sólveig Anna.