Andri Snær segir söguna þurrkaða út

Umhverfismál 6. feb 2024

„Almennt finnst mér að þegar „reitir“ eru endurgerðir á höfuðborgarsvæðinu að menn hafa tilhneigingu til að þurrka út öll ummerki um fyrra líf svæðisins, helst 20 metra ofan í klöpp.“

Þetta skrifar Andri Snær Magnason, rithöfundur og baráttumaður fyrir umhverfisvernd, á Facebook-síðu sína en tilefnið er að hafið niðurrif svokallaðs Íslandsbankahúss á Kirkjusandi. Í húsinu voru áður höfuðstöðvar Íslandsbanka en þeir sem eldri eru muna eftir því þegar húsið hýsti höfuðstöðvar Sambands íslenskra samvinnufélaga, Sambandsins, SÍS. Þeir sem enn eldri eru muna svo eftir því að húsið var upphaflega byggt sem frystihús útgerðarfyrirtækisins Júpíter og Mars á sjötta áratugnum. 

Andri Snær leggur út af niðurrifi hússins í færslu sinni og segir að sér þykir sérkennilegt hversu algengt sé að vel byggðar og stöndugar byggingar séu rifnar niður. Af því skapist umhverfisspor sem vitanlega sé neikvætt en Andri Snær bendir líka á að með niðurrifi bygginga sem hafa sett svip sinn á borgarlandið um áratugaskeið sé verið að þurrka út sögu borgarinnar. „Ekki endilega stærstu sögurnar heldur sagan sem tengir okkur við staði, atvinnusögu og tíðaranda,“ skrifar Andri Snær. 

Niðurrif bygginga hefur sannarlega í för með sér aukið umhverfisspor á meðan að endurnýting þeirra dregur úr framleiðslu nýrra efna, með þeirri mengun og notkun auðlinda sem þeim fylgir. Húsið á Kirkjusandi var hins vegar dæmt ónýtt vegna mikillar myglu sem fannst í því öllu, í innra byrði og klæðningu, jafnt sem burðarvirki hússins. Ekki var talið svara kostnaði, og jafnvel ekki gerlegt yfir höfuð, að fara í endurbætur sem tryggja myndu að hægt væri að komast fyrir mygluna. Húsið hefur staðið autt frá árinu 2017, þegar Íslandsbanki flutti starfsemi sína úr því vegna ástandsins, sem farið var að hafa áhrif á heilsu starfsfólks. 

Andri Snær bendir á að hann hafi árið 2006 tekið þátt í samkeppni um endurbætur á húsinu og stækkun þess ásamt Einrúm arkitektum og Arkitektúr.is. Tillagan hafi unnið samkeppnina en aldrei hafi verið ráðist í framkvæmdina. Ekki er hægt að fullyrða að ástand hússins hafi á þeim tíma verið með þeim hætti að hægt hefði verið að komast hjá niðurrifi, ef þá hefði verið ráðist í uppbyggingu. 

Fleiri stórhýsi bíða örlaga sinna

Fleiri dæmi eru um að að gömul frystihús sem settu svip sinn á borgina hafi mátt mæta þeim örlögum að hverfa af sjónarsviðinu. Þannig stóð við Mýrargötu 26 hraðfrystihús Hraðfrystimiðstöðvarinnar um áratugaskeið. Það var rifið niður árið 2006 eftir að hafa staðið autt og í niðurníðslu til fjölda ára en til hafði staðið að breyta húsinu í íbúðir og vinnustofur. Af því varð ekki heldur var byggt upp fjölbýlishús á lóðinni.

Þá bíða fleiri stórhýsi í borginni örlaga sinna. Greint var frá því í fjölmiðlum í janúar að fasteignafélagið Reginn hefði fengið sérfræðinga til að meta hvort Morgunblaðshúsið í Kringlunna yrði rifið eða því breytt og tekið til nýrra nota. Húsið er aðeins um þriggja áratuga gamalt, starfsemi Morgunblaðsins var flutt í það árið 1993. 

Í Morgunblaðinu 25. janúar síðastliðinn var haft eftir Guðjóni Auðunssyni, forstjóra Reita, að ekki væri markmið í sjálfu sér að rífa húsið en skrifstofubyggingin væri illa farin. Meta ætti umhverfissporið af niðurrifinu og heildaráhrifin af hvorri framkvæmd fyrir sig. „Umhverfissporin ráða dálítið för og spurningin hvort það sé hreinlega dýrara að rífa húsið og byggja nýtt en að endurbæta það þannig að vel sé en það mun líka hafa umhverfisspor í för með sér,“ sagði Guðjón. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí