Frjósemi á hraði niðurleið – Víða þörf á fjölda innflytjenda til að viðhalda mannfjölda

Nýtt heimsmet, og heldur neikvætt, var sett í Suður-Kóreu á síðasta ári þegar frjósemi þarlendra kvenna mældist aðeins 0,72 börn. Það er langt fyrir neðan þá frjósemi sem þörf er á til að viðhalda mannfjölda landsins en miðað er við að sú tala sé 2,1 börn. Ekki hafa verið gefnar út tölur fyrir síðasta ár á Íslandi en árið 2022 var frjósemistala íslenskra kvenna 1,59, sú lægsta sem mælst hefur.

Ísland er þar með langt frá því að geta viðhaldið náttúrulegum mannfjölda í landinu og þarf nauðsynlega á innflytjendum að halda til að svo megi verða. Skráðir íbúar á Íslandi eru orðnir 400 þúsund talsins en Hagstofan stefnir að því að birta nýjar, leiðréttar tölur í næsta mánuði. Talið er ljóst að talan sé eitthvað lægri en umræddar 400 þúsund sálir.  

Ef ekki kemur til innflutningur á fólki munu á Íslandi þannig verða færri hendur til verka, draga mun úr verðmætasköpun, og þjóðin mun grána verulega, en það hugtak er haft um þjóðir þar sem meðalaldur fer hækkandi og frjósemi dvínandi. Slíkt er og að gerast í allri Evrópu, ekkert Evrópuríki nær yfir 2,1 barna frjósemismarkið. Flest þeirra eru raunar víðs fjarri því marki.

Áhugamál hægri popúlista sem þó loka landamærum

 Þetta er enda umræðuefni um alla álfuna, einkum og sér í lagi eru hægri popúlískir þjóðarleiðtogar uppteknir af gránandi löndum sínum og hafa lagt í miklar æfingar til að auka frjósemi og fæðingartíðni í löndunum. Í Ungverjalandi, svo dæmi séu tekin, fær fólk sem eignast þrjú börn veglega styrki til húsakaupa og lán til hins sama á góðum kjörum. 

Þannig var í Búdapest í september síðastliðnum haldin mannfjölda ráðstefna, í fimmta sinn á síðustu tíu árum, þar sem takast átti á við þetta vandamál. Meðal gesta var hægri popúlistinn Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, sem einnig er afar upptekin af frjósemi kvenna. Einnig var á ráðstefnunni Jordan nokkur Peterson, af öllum mönnum. Engum sögum fer að því að frjósemi ungverskra kvenna hafi aukist verulega eftir þessa ráðstefnu.

Mörg þessara landa sem um ræðir eiga það sammerkt að reka mjög harða innflytjendastefnu. Í Ungverjalandi hefur Viktor Orbán nánast girt fyrir landamærin þegar kemur að flóttafólki, en Ungverjar samþykkja afar fáar hælisumsóknir, þó undantekningin síðustu tvö ár hafi verið flóttafólk frá Úkraínu. 

Á sama tíma og Suður-Kórea glímir við minnkandi frjósemi rekur landið einhverja hörðustu innflytjendastefnu í heiminum. Afar fáir fá heimild til að flytjast til landsins og sárafáir fá hæli í landinu, aðeins um 4.000 manns síðustu þrjá áratugi. 

Frjósemi fari niður fyrir 2,1 árið 2050

Frjósemi um heiminn allan er enn 2,3 börn fædd miðað við hverja konu svo fólksfjöldi er enn að aukast á heimsvísu. Spár gera ráð fyrir því að um miðja öldina verði frjósemi komin niður fyrir 2,1 barna markið, sem geri að verkum að mannfjöldi í heiminum fari þá aftur minnkandi. 

Lægsta frjósemi á heimsvísu er alla jafna í Austur-Asíu og hefur frjósemi í flestum löndum þar farið hægt og bítandi lækkandi. Þannig féll frjósemi í Síngapúr niður fyrir 1 á síðasta ári, í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins. Það er langt frá því að vera sjálfbært til að viðhalda mannfjölda í ríkinu.

Tölur eru vissulega nokkuð á reiki, upplýsingar eru misvísandi sé horft til innlendra hagtalna og svo mats alþjóðastofnana eða sjálfstæðra aðila. Engu að síður sést vel hversu gríðarlega hefur dregið úr frjósemi á heimsvísu. Um miðja síðustu öld var frjósemi á heimsvísu um 5 börn á hverja konu, sú hæsta sem mælst hafði. Eftir því sem á öldina leið dró úr frjósemi og um aldamótin hafði hún því sem næst helmingast, var þá 2,6 börn. Dregið hefur úr frjósemi í öllum heimsálfum á þessum tíma. 

Afríka lang frjósömust

Sé horft til heimsálfanna, og miðað við meðaltalsfrjósemi áranna 2015 til 2020, er frjósemi langhæst í Afríku, 4,4 börn á hverja konu. Í fjölmennasta ríki álfunnar, Nígeríu, er frjósemi þannig 4,57 börn. Árið 2022 var talið að 219 milljónir manns byggju í Nígeríu en mannfjöldaspá gerir ráð fyrir að þau verði 377 milljónir árið 2050. 

Í Eyjaálfu er frjósemi 2,4 prósent á hverja konu og fer ört lækkandi. Í álfunni búa aðeins um 45 milljónir manns, og langflestir í Ástralíu, um 26,5 milljónir manns. Þar er frjósemi komin niður í 1,6 barn. Í Papúa Nýju Gíneu, næst fjölmennasta ríki álfunnar þar sem búa um 10,5 milljónir manns, er frjósemin hins vegar 3,1 prósent en hefur farið lækkandi. 

Stutt í að íbúum í Asíu fari að fækka

Asía er þriðja heimsálfan þar sem frjósemi er yfir 2,1 barni á hverja konu, en aðeins rétt svo, frjósemistalan þar er 2,2. Sem fyrr sagði er frjósemi undir 2,1 markinu alls staðar í Austur-Asíu og verulega lág víða. Þannig var hún 1,09 í Kína, sem gerir það að verkum að öldrun kínversku þjóðarinnar er sú lang hraðasta á skráðum sögulegum tíma. Það skýrir líka hvernig á því stendur að Indland hefur nú tekið fram úr Kína yfir fjölmennustu ríki í heiminum en frjósemi í Suður-Asíu er öllu meiri en annars staðar í álfunni. Hins vegar sýna nýjustu tölur að í Indlandi hefur dregið úr frjósemi og er komin niður í 2 börn, sem er það lægsta sem mælst hefur og mun draga úr náttúrulegri mannfjölgun í landinu. 

Í Mið- og Suður-Ameríku er frjósemi 2 börn á hverja konu og fer lækkandi. Hún er þannig töluvert undir 2,1 barna markinu í tveimur fjölmennustu löndunum, Brasilíu og Mexíkó. 

Frjósemi fellur hjá innflytjendum af annarri kynslóð

Í Norður-Ameríku er frjósemi um 1,7 miðað við hverja konu. Í Kanada er frjósemin um 1,4 en í Bandaríkjunum var frjósemi á síðasta ári tæp 1,7 barn. Frjósemi meðal innfæddra Bandaríkjamanna er langt undir 2,1 en almennt hærri en 2,1 hjá innflytjendum. Hins vegar sýna tölur að frjósemi dvínar mjög skarpt í hópi kvenna af annarri kynslóð innflytjenda. Til að viðhalda mannfjölda þurfa Bandaríkin því á innflytendum að halda.

Evrópa gránar

í Evrópu mældist frjósemi 1,6 barn á árunum 2015 til 2020, og árið 2021 var hún komin niður í 1,53 börn á hverja konu. Ekkert Evrópuríki eru yfir 2,1 barna tölunni, Frakkland mældist hæst árið 2021 með 1,84 börn. Frjósemi er almennt mjög lág í Suður-Evrópu, þar af er hún lægst á Möltu þar sem hún var 1,13 árið 2021. 

Frjósemi er ekki áberandi hærri í Austur-Evrópu að meðaltali en annars staðar í álfunni, öfugt við það sem oft er talið. Sökum lágrar frjósemi í álfunni allri skapar miklir fjöldaflutningar ungs fólks frá löndum á borð við Pólland, Rúmeníu og Búlgaríu veruleg samfélagsleg og efnahagsleg vandræði í löndunum, þar eð færri vinnandi hendur eru til staðar til að skapa verðmæti og sinna nauðsynlegum störfum. 

Frjósemi á Íslandi er þannig um við meðaltal Evrópuríkjanna og fjarri því að halda í við náttúrulega mannfjölgun. Til að viðhalda mannfjöldanum, hvað þá til að fjölga íbúum Íslands er því þörf á töluverðum fjölda innflytjenda árlega til landsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí