Ísraelski herinn skaut þrjá Palistínumenn til dauða í áhlaupum á herteknu svæðunum á Vesturbakkanum í nótt og særði fleiri. Þá voru fjölmargir handteknir. Aðgerðir ísraelska hersins á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem hafa stigmagnast allt frá upphafi árásarstríðsins á Gaza. Vonir standa til að koma megi á bráðabirgða vopnahléi, jafnvel á mánudaginn kemur.
Fjöldi fjölmiða greindi frá atburðunum. Ísraelskar hersveitir gerðu áhlaup á Far’a flóttamannabúðirnar á Vesturbakkanum og skutu þar að minnsta kosti tvo til bana. Greint var frá hörðum bardögum í búðunum hersveita við andspyrnumenn Palestínumanna, og að ótilgreindur fjöldi væri særður.
Í borginni Nablus, einnig á Vesturbakkanum, er einn látinn eftir skothríð Ísraelsmanna og að minnsta kosti fjórir voru handteknir, að því er Wafa fréttastofan greinir frá. Þá gerði ísraelski herinn einnig áhlaup á Jazalone flóttamannabúðirnar utan við Ramallah og handtók ótilgreindan fjölda manna. Þá var einn Palestínumaður skotinn við Beit Furik.
Vonir um vopnahlé hafa glæðst
Greint er frá því að miðað hafi áfram í viðræðum um mögulegt bráðabirgða vopnahlé af mannúðarástæðum. Joe Biden Bandaríkjaforseti sagðist þannig vonast til þess að vopnahlé tæki gildi næsta mánudag og bætti við að samkomlag væri í sjónmáli, en þó væri enn eitthvað í land. Biden sagði að í samkomulaginu myndi felast að Ísraelar myndu stöðva aðgerðir sínar á Gaza yfir hinn heilaga Ramadan mánuð, sem hefst 10. mars.
Samkvæmt heimildum Al Jazeera fréttastofunnar er nú gert ráð fyrir að í samkomulaginu, náist saman um það, felist meðal annars að 400 palestínskum föngum í haldi Ísraela verði sleppt og 40 gíslum sem Hamas halda á Gaza verði sleppt á móti.
Sendinefnd Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum hefur dreit uppkasti af ályktun til fulltrúa í Öryggisráðinu og hvetur þá til að ná samkomulagi um bráðabirgða vopnahlé, að því er Reuters greinir frá.