Tveggja mánaða gamall drengur dó úr hungri í Gazaborg síðastliðinn föstudag. Yfirmaður eins af þeim fáu sjúkrahúsum sem eru að hluta enn starfhæf á Gaza segir að einkenni vannæringar séu greinileg á öllum nýburum, sökum þess að mæðurnar svelti. Fjöldi barna hafi dáið á síðustu vikum úr hungri og verði ekki að gert muni fjöldinn margfaldast. Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst yfirvofandi barnadauð sem sprengingu.
Drengurinn litli sem dó hét Mahmour Fattouh og lést hann á al-Shifa sjúkrahúsinu í Gazaborg. Bráðaliðar sem reyndu að bjarga drengnum sögðu að hann hefði enga mjólk fengið dögum saman. Enga barnamjólk er að hafa á Gaza-ströndinni.
Á sama tíma hunsa ísraelsk stjórnvöld beiðnir og kröfur alþjóðasamfélagsins um að leyfa aukinn flutning hjálpargagna inn á Gaza svæðið, þar sem ísraelski herinn hefur myrt 30 þúsund manns og sært 70 þúsund á 142 dögum. Grimmdaræðið á að heita svar við hryðjuverkaárásum Hamas 7. október, þar sem 1.139 voru myrtir.
Gaza er á barmi hungursneyðar, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum, en 2,3 milljónir Palestínumanna eru þar í herkví Ísraelshers. Ísraelar stöðvuðu alla flutninga á matvælum, vatni og eldsneyti inn á svæðið í upphafi árásarstríðs síns. Það var ekki fyrr en í desember sem ein aðkomuleið fyrir neyðarhjálp var opnuð, í Karem Abu Salem. Hjálparsamtök segja hins vegar að ítrekuð afskipti ísrelskra hermanna og mótmæli öfga hægrisinnaðra ísrealskra mótmælenda hafi hamlað því að vörubílar mað matvæli hafi komist inn á Gaza-strönd.
Matvælahjálp Sameinuðu þjóðanna gerði tilraun til að hefja neyðaraðstoð að nýju á norðurhluta Gaza fyrir viku en gáfust upp tveimur dögum síðar og lýstu því að ísraelsk skothríð og hrun samfélagsins kæmi í veg fyrir að slíkt væri mögulegt.
Talið er að minnsta kosti 90 prósent barna undir fimm ára aldri á Gaza séu veik af smitsjúkdómum og 15 prósent barna undir tveggja ára aldri á norðurhluta svæðisins séu alvarlega vannærð, séu að svelta í hel.