Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðiprófessor emeritus, segist ekki sannfærður um að Halla Tómasdóttir hyggist bjóða sig fram til embættis forseta Íslands með formlegum hætti á morgun.
Halla hefur boðið til fréttamannafundar og telur kollegi Ólafs, Grétar Þór Eyþórsson einsýnt að Halla muni boða framboð.
Ólafur segir í samtali við Samstöðina að hann sé ekki alveg viss um það.
„Ég veit ekki hvort hún boðar framboð á morgun,“ segir Ólafur. „Árangur hennar 2016 er hins vegar afar athyglisverður og sýnir að með framgöngu sinni í kosningabaráttu getur frambjóðandi snúið hlutum heldur betur sér í hag.“
Ólafur rekur að í byrjun maí 2016 mældist Halla með 2% í skoðanakönnunum og 7% í byrjun júní. Hún mældist með um 18% í síðustu könnun Gallups fyrir kosningar (20.-24. júní – en kosningar voru 25. júní). Í kosningunum fékk hún 10 prósentustigum meira, eða 27,8%.
Könnun Félagsvísindastofnunar eftir kosningar leiddi í ljós að 25% kjósenda sögðust hafa ákveðið sig 1-4 dögum fyrir kosningar eða á kjördag – og meirihlutinn af kjósendum Höllu var í þeim hópi.
„Reynsla hennar af kosningabaráttu er því góð, en engin leið er til að spá fyrir um fylgi hennar á þessari stundu – í breyttu umhverfi átta árum síðar,“ segir Ólafur Þ. Harðarson.