ÖBÍ-réttindasamtök hafa lagt fram umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, er lítur að fjarheilbrigðisþjónustu. ÖBÍ fagnar frumvarpinu enda hafa samtökin bent á það á undanförnum árum að með tilkomu fjarheilbrigðiskerfis verði aðgengi fatlaðs fólks að heilbrigðisþjónustu betur tryggt. Engu að síður verði að taka með í reikninginn að fatlað fólk getur átt erfitt með að nýta sér slíka þjónustu, af ýmsum sökum, og verður því að taka mið af því við alla stefnumörkun.
Umsögnin fer hér að neðan.
ÖBÍ – réttindasamtök (ÖBÍ) taka heilshugar undir mikilvægi þess að ný grein komi inn í lögin um heilbrigðisþjónustu sem inniheldur skilgreiningu á því hvað felst í fjarheilbrigðisþjónustu og mismunandi þáttum hennar.
ÖBÍ hefur á undanförnum árum bent á að með tilkomu fjarheilbrigðisþjónustu mun aðgengi fatlaðs fólks að heilbrigðisþjónustu vera betur tryggt. Fatlað fólk er mun líklegra til að fara í fleiri læknisheimsóknir en ófatlað fólk og jafnframt líklegra til að þurfa að nýta sér annars konar heilbrigðisþjónustu og því er nauðsynlegt að huga sérstaklega að því að fatlað fólk eigi raunverulega möguleika á því að nýta sér fjarheilbrigðisþjónustu. Ávinningurinn af fjarheilbrigðisþjónustu er að kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu verður minni og samfella í heilbrigðisþjónustu og umönnun verður betur tryggð.
ÖBÍ bendir þó á að fatlað fólk getur átt erfitt með að nýta sér fjarheilbrigðisþjónustu. Ástæðurnar eru margþættar, til að nefna, er 20% ólíklegra að fatlað fólk eigi tölvu, snjallsíma eða spjaldtölvu samanborið við ófatlað fólk. Fatlað fólk er oft undir fátæktarmörkum og hefur því ekki efni á kaupa vörur sem eru sniðnar að háþróaðri tækni. Auk þess geta eldri einstaklingar, fólk með þröskahömlun og skyldar fatlanir og einhverfir, átt erfitt með nýta sér fjarheilbrigðisþjónustu. Ennfremur þarf að huga sérstaklega að einstaklingum sem eru blindir, heyrnalausir, heyrnaskertir eða daufblindir.
Brýnt er að öll stefnumörkun varðandi fjarheilbrigðisþjónustu helgist af því að þjónustan sé aðgengileg, hagnýt og styðjandi fyrir fatlað fólk enda eru ríki skuldbundin til að virða, vernda og uppfylla réttinn til heilsu í innlendum lögum, reglugerðum, stefnumótun, fjárveitingum, áætlunum og öðru sem þau hafa forgöngu um. Rétturinn á bestu mögulegu heilsu er meðal mikilvægustu grunnmannréttinda og því mikilvægt skilyrði fyrir möguleikum fatlaðs fólks á því að njóta annarra mannréttinda. Bæði innlend löggjöf og fjöldi alþjóðlegra mannréttindasamninga áskilja að rétturinn til bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sé tryggður.