Líkamsþyngd barnshafandi kvenna á Norðurlandi hefur aukist jafnt og þétt síðastliðin 19 ár. 30 þrósent kvenna á Norðurlandi glíma nú við offitu við upphaf meðgöngu. Margvíslegar lýðheilsulegar afleiðingar fylgja fyrir bæði mæður og börn.
Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem Kamilla Dóra Jónsdóttir læknanemi birtir í Læknablaðinu.
Í greininni segir að ofþyngd og offita barnshafandi kvenna sé ört vaxandi lýðheilsuvandamál um allan heim. Í íslenskum gögnum frá 2015 og 2016 voru 24 prósent kvenna í ofþyngd og 19 prósent með offitu í upphafi meðgöngu. Samkvæmt þessu er hlutfall mæðra í ofþyngd töluvert hærra fyrir norðan en samkvæmt landsmeðaltali.
Konur sem hefja meðgöngu í ofþyngd eða með offitu eru líklegri en konur í kjörþyngd til að fá meðgöngukvilla, svo sem meðgöngusykursýki, meðgönguháþrýsting og meðgöngueitrun. Eykst áhætta með aukinni þyngd.
Einnig eru konur í ofþyngd og með offitu líklegri en konur í kjörþyngd til sað fæða vokallaða þungbura og nýbura sem eru stórir fyrir hefðbundna fæðingaraðferð.
Framköllun fæðingar, fæðing með keisaraskurði og áhaldafæðingar eru algengari hjá þessum konum samanborið við konur í kjörþyngd.
Auk þess eru vísbendingar um að þyngd móður á meðgöngu geti haft áhrif á þyngd og heilsufar barna þeirra seinna meir. Börn kvenna með offitu eru til dæmis líklegri til að glíma sjálf við offitu, fá frekar hjarta- og æðasjúkdóma, efnaskiptasjúkdóma, astma og taugaþroskaraskanir síðar á lífsleiðinni, samanborið við börn kvenna í kjörþyngd á meðgöngu að því er fram kemur í grein Kamillu í Læknablaðinu.
Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja þróun líkamsþyngdar barnshafandi kvenna við upphaf meðgöngu á Norðurlandi síðastliðin 19 ár, frá 2004 til 2022, og skoða hvort marktæk breyting hafi orðið á líkamsþyngdarstuðli og algengi ofþyngdar og offitu í þessum hópi.
Rannsóknin var gerð á öllum konum sem fæddu á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) frá 1. janúar 2004 til 31. desember 2022. Alls fæddu 8063 konur 8168 börn á tímabilinu.. Heildarfjöldi kvenna í þýðinu eftir útilokanir var 7410.
Mikilvægt er að skoða áhrif offitu betur á meðgöngu og fæðingu og hvernig minnka megi áhrif eða snúa þróuninni við eins og segir í greininni sem ber heitið „Þróun líkamsþyngdar barnshafandi kvenna við upphaf meðgöngu á Norðurlandi árin 2004-2022“.