Íslenskir ferðalangar sem hafa farið erlendis síðustu vikur taka sumir hverjir undir það sem komið hefur fram síðustu daga hjá innlendum ferðamálayfirvöldum að það sé eins og slegið hafi á áhuga erlendra túrista að koma hingað til lands. Öryggismál og dýrtíð virðast helstu orsakir.
Þetta spyr spurninga um áætlanagerð og hagkerfið. Ein spurningin er hvort um oft hafi síðustu ár verið verið einblínt á þá mannfreku þjónustu sem ferðaþjónusta er, sem kann að auki að vera hvarfgjarnari auðlind en ráðamenn og viðskiptaöfl hafa séð fyrir.
Samstöðin býr yfir upplýsingum um íslenskan ferðamann sem var í New York fyrir nokkrum dögum ítrekað stöðvaður af fólki sem spurði til hvaða landa Íslendingar hefðu hugsað sér að flytja. Vísað var til að þegar hraun flæddi yfir byggðir hér og algjör óvissa væri um framtíðina mætti staðhæfa að Ísland væri „hættulegur staður“.
Jafnvel ferðamenn frá Skandínavíu, þar sem ætla mætti að æsifréttamennska af náttúruhamförunum væri ekki af sama meiði og í sumum öðrum löndum, hafa spurt innlenda blaðamenn hvort Ísland sé í raun öruggur áfangastaður þessa dagana. Staðsetning alþjóðaflugvallarins, svo nálægt eldsumbrotunum, hefur komið til umræðu.
Ríkisútvarpið sagði í frétt í gær að íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu hefðu fengið frekar þungar móttökur á ráðstefnu ferðaheildsala í Þýskalandi í fyrri viku. Verðlagið, eldsumbrot og ónóg markaðssetning skýra þá stöðu sem upp er komin að mati formanns Samtaka ferðaþjónustunnar.
Á sama tíma bendir fréttaflutningur síðustu daga til þess sem hraður vöxtur ferðaþjónustu hér á landi hafi haft í för með sér mansal og leikur grunur á fjölda brota gagnvart erlendum starfsmönnum sem eru fluttir hingað tímabundið til lands í miklum mæli og búa margir hverjir við illan kost.
Þetta þykir ekki gott afspurnar. Allra síst á tímum dýrtíðar og meints óöryggis en vikuferð í Safari leiðangur í Afríku er nú sögð kosta svipað og mun fábrotnari ferð í gegnum Keflavík eftir því sem fram kemur hjá Ríkisútvarpinu. Sjá frétt Rúv hér: Ísland að kólna – RÚV.is (ruv.is)