Hera Björk Þórhallsdóttir söngkona, sem sigraði í undankeppni Evróvisjón um helgina, hefur fengið urmul einkaskilaboða frá fólki sem telur óráð að hún taki þátt í Evróvisjón vegna þátttöku Ísraels og grimmdarverka á Gaza.
Þessu er haldið fram á sniðgönguþræði vegna Palestínu á facebook. Þar hafa margir staðhæft að þeir hafi sent söngkonunni skilaboð. Ítrekað kemur fram sú skoðun að ekki sé hægt að berjast fyrir friði með þátttöku á sama sviði og fljóti í blóði vegna manndrápa Ísraelshers.
Sumir hafa sent Heru nafnalista með börnum sem hafa verið drepin í stríðinu á Gaza.
Talið er að fjöldi palestínskra fórnarlamba sé yfir 30.000.
Til rannsóknar er nú hvort úrslitin á laugardagskvöld hafi verið rigguð. Það bætist við fyrri umdeilanleika hjá Rúv að halda keppnina í stað sniðgöngu þar sem framferði Ísraels á Gaza væri mótmælt.
Grunur leikur á að atkvæði fólks sem taldi sig vera að kjósa Palestínumanninn Bashar Murad, sem lenti í öðru sæti, hafi runnið til Heru.
Þá birti Mogginn frétt rétt fyrir lokaúrslitin á laugardag sem kom Rúv og Palestínumanninum illa. Kann fréttaflutningurinn að hafa haft áhrif á atkvæðagreiðsluna en mikill fjöldi fólks steig fram á samfélagsmiðlum á laugardagskvöldið og lýsti skoðunum sem margir hafa túlkað sem rasísk ummæli.
Samstöðin hefur sent Heru Björk erindi vegna málsins.