„Leggjumst öll á eitt og kjósum eitthvað annað en fulltrúa hryðjuverkasamtakanna HAMAS. Athugið að þessi náungi er yfirlýstur samkynhneigður. En Hamas er eins og ISIS. „Hata.“ Þannig að ef hann myndi vinna, hvað myndu fulltrúar HAMSA á Íslandi þá gera? Henda honum úr turninum á Hallgrímskirkju? Það gerðu þeir við samkynhneigða í Sýrlandi. Hentu þeim niður úr háum byggingum.“
Þetta skrifar Helgi Helgason innan Facebook-hóps Íslensku þjóðfylkingarinnar, stjórnmálaflokks sem bauð fram í Alþingiskosningum árið 2016. Þó að flokksmenn hafni því vafalaust, þá er ekki með nokkrum móti hægt að lýsa flokknum, sem fékk 0,2 prósent atkvæða árið 2016, öðruvísi en sem flokki rasista á Íslandi. Óhætt er að segja að Helgi hafi verið meðal virkustu flokksmanna frá stofnun, í það minnsta á samfélagsmiðlum. Til marks um það þá hefur Helgi verið bæði formaður og varaformaður yfir árin.
Helgi er einnig menntaskólakennari. Hann kennir dönsku og fjármálalæsi við Menntaskólann að Laugavatni. Í gær var vakin athygli á þessu innan Facebook-hóps baráttufólks gegn kvenfyrirlitningu og rasisma að Helgi væri að starfa í svo viðkvæmu starfi. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og margir segjast hafa hafa sent skólastjóranum, Jónu Katrínu Hilmarsdóttur, tölvupóst til að tilkynna henni hvernig starfsmaður hennar væri að tjá sig á netinu.
Helgi er bæði stjórnandi og líklega sá virkasti innan fyrrnefnds hóps. Helgi stingur niður penna svo að segja daglega. Sú færsla sem snýst ekki um útlendingamál er vanfundin. Langflestar færslurnar tjá þó í raun ekkert annað en múslímahatur. Fyrir viku skrifaði Helgi til að mynda:
„Sagt er frá því að femínistarnir sem eru svo stórtækar í því að flytja hér inn menningu kvenhaturs og ofbeldis, reikni með að 17 arabar frá Palistínu séu væntanlegir næstu daga. Í hópnum eru 2 mæður og 14. börn!! 14 börn! Er ekki ástæða til að hvetja stjórnvöld til að DNA rannsókn verði gerð á börnunum? Hvort þau eigi skyldleika við mæðurnar eða föður? Eða eru stjórnvöld bara til í að taka sénsinn á því að hér sé ekki barnaníð eða mansal á ferðinni?“
Svo virðist sem þessi skrif Helga muni hafa afleiðingar fyrir hann. Í morgun sendi Jóna Katrín skólastjóri sama svar á alla þá sem höfðu sent henni tölvupóst um helgina. Ef marka má það svar þá hefur stjórnmálaþátttaka Helga farið fram hjá Jónu Katrínu fram að þessu. „Hjartans þakkir fyrir ábendinguna, mér þykir vænt um að þú hafir samband við mig beint og látir þig málið varða. Ég er virkilega slegin yfir þessu máli. Menntaskólinn að Laugavatni lítur málið alvarlegum augum og verður fjallað um málið í dag,“ skrifar Jóna Katrín.
Í samtali við Samstöðina segir Jóna Katrín að við þetta sé í raun enn lítið að bæta. Hún ítrekar að hún sé slegin yfir þessu og dagurinn í dag hafi að talsverðu leyti farið í skoða mál Helga nánar. Hún segir að enn sé ekki búið að ákveða hvað verði gert í málinu. Sú ákvörðun verði þó tilkynnt innan skamms opinberlega.