„Smám saman er lýðræðið að verða merkingarlaust“

Síðustu daga hefur verið settur á svið nokkurs konar leikþáttur þar sem rifist er um hvort Landsbankinn, fyrirtæki sem er nær alfarið í eigu almennings í gegnum íslenska ríkið, sé ríkisbanki eða almenningshlutafélag. Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, bendir á að þessi leikþáttur sé í raun dæmigerður fyrir þá þróun sem á sér stað í flestum Vesturlöndum um þessar mundir, hvernig vald ríkisins sé sífellt útvistað til einkafyrirtækja með þeim afleiðingum að lýðræði verður merkingarlaust og í raun dautt.

„Landsbankinn er ekki ríkisbanki heldur almenningshlutafélag, sagði bankastýran drjúg. Á sama tíma og ég las þetta var ég að hlusta á hlaðvarpið Empire þar sem breska Austur-Indíafélagið kemur mikið við sögu. Það var líka bara almenningshlutafélag (stofnað 1600) en fyrirtækið komst yfir allt Indland og átti það og rak fram til 1858. Kompaníið var með eigin her sem taldi mest 230 þúsund hermenn eða tvöfallt fleiri en breska krúnan. Austur Indíafélagið var ekki ríki í ríkinu heldur mun öflugra en ríkið,“ skrifar Kristinn á Facebook og heldur áfram:

„Í liðinni viku skaut SpaceX, geimfélag Elon Musk, risaflaug út í geim en Bandaríkjastjórn áformar að kaupa þjónustu af þessu almenningshlutafélagi og telur burðugra að einkavæða geimbransann en að standa í honum með ríkisrekstri. Sami Musk stýrir einnig fjarskiptaþjónustunni Starlink frá geimnum og ræður yfir rúmlega helmingi allra fjarskiptahnatta á braut um jörðu. Einn stærsti viðskiptavinur þar er Bandarríkjaher og kemst illa af án þessarar þjónustu. Allur hernaður Úkraínuhers reiðir sig líka á fjarskipti Starlink.“

Annað dæmi um þessa þróun er tilraunir Vestanhafs við að banna samfélagsmiðilinn Tik-Tok. „Nú er svo komið að nánast öll umræða í vestrænum lýðræðisríkjum er á vettvangi nokkurra Bandarískra almenningshlutafélaga sem beita þar ritskoðun ef þeim þykir henta og jafnvel setja einstök orð á válista, án þess að kjörnir fulltrúar fái rönd við reist. Helst er að frétta úr þeim geira að óttast er að kínverska risafyrirtækið sem rekur Tik-Tok muni ógna „lýðræðinu“ og gegn því ætla nú ábúðarfullir pólitíkusar í Ameríku að sporna. Þeir vilja fyrir alla muni að það séu bandarísk risafyrirtæki sem stjórni umræðunni en ekki kínversk.

Smám saman er lýðræðið að verða merkingarlaust enda bara kosið í stjórn leikfélagsins.

Hún mun áfram leggja til að hafa bara Vesalingana á sviði,“ segir Kristinn.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí