„Forstjóri fyrirtækis ákveður upp á sitt eins dæmi, að eigandi ráði engu um framþróun fyrirtækisins. Þetta hefur gerst nokkrum sinnum á Íslandi og alltaf endað á sama veg. Forstjórinn hefur þurft að leita sér að nýrri vinnu.“
Þetta skrifar Marinó G. Njálsson á Facebook en hann vísar til ákvörðunar Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, um að falla ekki frá kaupum á TM tryggingum þrátt fyrir yfirlýsta andstöðu fjármálaráðherra. Hann telur útséð að Lilja Björk muni tapa þessum slag. Marinó heldur áfram:
„Nú verður spennandi að sjá, hvort bankastjóra Landsbankans verði sagt upp störfum, eftir að hún taldi sig ráða meiru um ríkisvæðingu stórs tryggingafélags í gegn um bankann sem hún stjórnar, en fjármálaráðherra sem þó fer með 98% hlut ríkisins í Landsbankanum. Ég er ekki að sjá Þórdísi Kolbrúnu gefa eftir, enda gæti hún í leiðinni látið af öllum draumum um að verða formaður Sjálfstæðisflokksins. Held að Lilja Björk hafi átt að velja sér annan slag en þennan.“