„Vissulega hefur maður áhyggjur af rasisma, sem birtist nú með skýrari hætti en áður, ekki síst á samfélagsmiðlum. Það er í raun ótrúlegt hvað fólk er tilbúið að láta út úr sér þar,“ segir Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Með því tekur þingmaðurinn undir raddir fjölmargra sem hafa upplifað af innleggjum á samfélagsmiðlum, að rasismi og útlendingaandúð sé nánast í veldisvexti síðustu daga.
„Miðað við þessa birtingarmynd er ekki erfitt að gera sér í hugarlund þau hryllilegu áhrif sem þetta hefur á það fólk sem verður fyrir honum,“ segir Logi í samtali við Samstöðina.
Varðandi undankeppni Evróvisjón sem virðist hafa lyft pottlokinu af heiftarbylgju, segir Logi að hann hefði sjálfur kostið sniðgöngu en að Rúv héldi keppnina. Hann telur að besta lagið hafi ekki verið valið og útilokar ekki að menningarleg áhrif hafi spilað inn í lokaniðurstöðuna.
„Ég var raunar á því að við ættum ekki að taka þátt að þessu sinni, en sú skoðun varð ekki ofan á og ég verð bara að sætta mig við það,“ segir Logi.
„En úr því að við tökum þátt finnst mér synd að við skyldum ekki hafa borið gæfu til að velja besta framlagið,“ bætir Logi við. „En þar er ég greinilega ekki heldur í takti við meirihluta þeirra sem kusu.“