„Undanfarin ár höfum við aukið fjárveitingar til öryggis- og varnarmála jafnt og þétt, og ég legg áherslu á að við höldum áfram á þeirri braut af fullum þunga,“ skrifar Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra í Mogga dagsins.
Krafa Nató á aðildarríki eru að 2% af landsframleiðslu fari til hernaðar og varnarmála, sem myndi nema um 90 milljörðum króna fyrir Ísland. Hingað til hefur Ísland verið undanþegið þessum kröfum, einkum á þeim tíma þegar fæst lönd stóðu undir þessu. Undanfarin misseri hafa öll lönd Evrópu, sem tilheyra Nató, stóraukið framlög sín og eru mörg komin langt yfir þessi 2%. Talið er að á næstum árum muni krafan um framlag til hernaðar og varnarmála aukast í 2,5%, sem væru yfir 110 milljarðar króna á Íslandi.
„Þýðingarmesta framlag Íslands hefur helgast af legu landsins í miðju Norður-Atlantshafi,“ skrifar Bjarni í Moggann. „Þannig styðjum við eftirlit og viðbúnað bandalagsins með rekstri ratsjárkerfa og annarra varnarinnviða, auk gistiríkjaþjónustu fyrir liðsafla bandalagsríkja á öryggissvæðinu í Keflavík – meðal annars í tengslum við loftrýmisgæslu og varnaræfingar. Þá hafa Íslendingar farið til borgaralegra starfa í tengslum við verkefni bandalagsins og í höfuðstöðvum þess og herstjórnum. Við höfum sömuleiðis tekið að okkur þjálfun úkraínskra sjóliðsforingja, stutt við innkaup Tékklands á skotfærum fyrir Úkraínu og ráðist í ýmis verkefni í krafti smæðarinnar – þ. á m. hergagnaflutninga og færanlegt neyðarsjúkrahús.“
Af skrifum Bjarna má ráða að ráðherrarnir í ríkisstjórninni hafi fallist á að Ísland muni auka framlög sín til hernaðar. Lengi vel var það talið að Ísland væri undanþegið þessari kröfu vegna þess að hér er enginn her. En af orðum Bjarna og ákvörðun ríkisstjórnarinnar á undanförnum misserum er augljóst að það skjól er að falla. Þessi stefnubreyting hefur hins vegar ekki verið rædd opinberlega, svo óljóst er hver afstaða almennings er til þess að færa um 90 milljarða króna úr grunnkerfum samfélagsins yfir í hernað og varnarmál. Það var líka stefnubreyting að nota íslenskt skattfé til að kaupa skotfæri og senda til Úkraínu, en sú stefnubreyting var ekkert rætt, hvorki á Alþingi né annars staðar.