Daði Logason, nemandi í 10. bekk í Laugalækjarskóla, sigraði í stærðfræðikeppni sem Menntaskólinn í Reykjavík efndi til fyrr í vetur. Úrslit voru kunngjörð í hádeginu í dag að viðstöddu fjölmenni á hátíðarsal MR.
Alls voru tíu efstu nemendum í áttunda, níunda og tíunda vekk veittar viðurkenningar.
Daði bar höfuð og herðar yfir aðra keppendur í tíunda bekk með 95 stig. Metþátttaka var þetta árið í keppninni, en alls spreyttu 150-160 úrvalsnemendur í stærðfræði sig á stærðfræðiþrautum, sem sumar hverjar kölluðu á sjálfstæða ályktunargáfu þátttakenda og þar með skapandi hugsun. Kom fram í máli stærðfræðikennara hjá MR sem veitti verðlaunin að Daði hefði tekið þátt í stærðfræðikeppnum framhaldsskólanna undanfarin ár með góðum árangri þrátt fyrir að vera enn í grunnskóla.
Arion banki veitti þremur efstu í hverjum árgangi peningaverðlaun. Auk þess fengu tíu efstu viðurkenningarskjal og reiknivél í viðurkenningarskyni.
Sólveig Guðrún Hannesdóttir, rektor MR, flutti tölu um sögu skólans fyrir verðlaunaafhendinguna.
(Myndir: Björn Þorláks)