Katrín Jakobsdóttir nýtur 31,4% stuðnings í framboði til forseta Íslands samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Baldur Þórhallsson kemur henni næstur, með 24% fylgi, og er tölfræðilega marktækur munur á þeim tveimur. Vísir greinir frá.
Jón Gnarr nýtur þriðja mesta stuðningsins samkvæmt könnuninni en 18,9% segjast styðja hann. Ekki er tölfræðilega marktækur munur á fylgi Jóns og Baldurs. Halla Hrund Logadóttir mælist með 10,5% prósenta stuðning.
Aðrir ná ekki yfir tveggja stafa tölu. Halla Tómasdóttir mælist með 6,7% stuðning, Arnar Þór Jónsson með 3,8% stuðning, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir með 1,8% og Ásdís Rán Gunnarsdóttir með 1,3%. Aðrir mælast undir einu prósenti.
Öll þau þrjú efstu mælast með lítillega minna fylgi en í síðustu könnun Maskínu sem birtist 8. apríl síðastliðinn. Ekki er þó um marktækar breytingar að ræða í þeim tilfellum. Þá mældist Katrín með 32,9% fylgi, Baldur með 26,7% og Jón með 19,6%. Halla Hrund tekur hins vegar stökk á milli kannana en hún mældist síðast með 5,7% stuðning. Í þeirri könnun mældist Halla Tómasdóttir með 7,9% fylgi.
Könnunin fór fram dagana 12. til 16. apríl.