Dagur hjólar í fréttamann Rúv

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og fyrrum borgarstjóri, hefur lýst sinni hlið á því sem gerðist þegar María Sigrún, fréttamaður Rúv, vann innslag sem sýnt var í Kastljósi í vikunni um meinta vafasama fjármálagjörninga Dags við olíufélögin vegna lóðamála sem hafi kostað íbúa borgarinnar fé.

Dagur sakar fréttamann Rúv um að hafa virt upplýsingar að vettugi og líkir Kastljósi við Staksteina Moggans.

Ein helsta senan sem birt var og virðist hafa verið ætlað að veikja trúverðugleika Dags er þegar María Sigrún bendir borgarstjóra í dimmum sal á að það sem hann segi um gögnin sé ekki rétt.

Um þetta atriði sem mikið hefur verið fjallað um í Hádegismóum skrifar Dagur:

„María Sigrún bað mig um viðtal vegna undirbúnings þessarar umfjöllunar sem ég samþykkti strax, enda sjálfsagt. Hún vildi taka það í fundarherbergi í ráðhúsinu þannig að við mæltum okkur mót í borgarráðsherberginu. Mér fannst það þó nokkuð dimmt og sagði eitthvað á þá leið að við ættum auðvelt með að finna bjartari og betri stað. María sagði, „Nei, þetta er fullkomið“. Viðtalið sem átti að vera hálftími, sem er óvenju langt, stóð yfir í einn og hálfan tíma. Það eitt og sér var sérstakt en mér fannst það fínt vegna þess að mjög margar spurningarnar sem settar voru fram byggðu upplýsingum sem mér fannst ýktar, ónákvæmar eða jafnvel beinlínis rangar og fannst gott að geta komið á framfæri svörum við því – og svo sem ekkert óeðlilegt að fréttamaður væri að bera undir mig eitthvað sem viðkomandi hefði heyrt eða fullyrt hefði verið, ekki síst af minnihlutanum í borgarstjórn.“

Svo segir Dagur:

„Þarna kom svo þetta furðulega augnablik þegar María Sigrún fullyrti að það kæmi hvergi fram í gögnum borgarráðs í upphafi málsins að lóðahafar myndu geta byggt íbúðir á lóðunum þá forsendu að ekki þyrfti að borga viðbótarbyggingarréttargjald ef unnið yrði að skipulagi og teikningum fyrir íbúðir á bensínstöðvareitunum innan þriggja ára. Ég mótmælti því og sagði það sannarlega hafa verið skýrt og að það hefði öllum verið ljóst, líka fulltrúum minnihlutans í borgarráði sem greiddu þessari aðferðarfræði atkvæði sitt. María Sigrún sagði að þau væru á öðru máli. Ég svaraði eitthvað á þá leið að það væri ekki heil brú í því og það væri eitthvað sem sagt væri eftir á. „Samþykkt borgarráðs er alveg skýr hvað þetta varðar og öll gögn.“ María Sigrún rengir þetta og spyr mig: „Hvar sérðu það?“ Ég færi mig að henni í viðtalinu og við blöðum í gögnunum og ég bendi henni meðal annars á staðinn þar sem þetta stendur. Hún segir hins vegar eitthvað á þá leið: „Af hverju stendur það ekki? Þeim fannst þetta ekki skýrt.“

Mér fannst svo sem ekkert óeðlilegt að María Sigrún kynni ekki skil á öllu í þessum fimm ára gömlu gögnum borgarráðs og gaf mér að hún myndi nota tímann eftir viðtalið og fara yfir þetta. Mér fannst hins vegar fráleitt að hún myndi nota þetta myndbrot eftir að hún legðist yfir gögnin. Ég fékk þó einhverja skrýtna tilfinningu með þetta allt saman og settist því strax niður eftir viðtalið og sendi henni tölvupóst þar sem ég klippti inn setningarnar sem hún sagðist ekki sjá og sagði að minnihlutinn vildi ekki kannast við. Ég læt skjáskot af póstinum fylgja með. „

Dagur segist hafa undrast mjög þegar hann sá útkomu þessa

„Ég átti bágt með að trúa framsetningu Maríu Sigrúnar og Kastljóss hvað þetta varðar þegar það loks birtist á mánudaginn. María Sigrún gerði ekki aðeins þessa senu þar sem við blöðum í gögnunum að einu meginatriði umfjöllunarinnar. Hún lét jafnframt hanga alveg í lausu loft hvort ég hafi verið að benda eitthvað út í bláinn og birti alls ekki kaflann úr samningsmarkmiðum og erindisbréfi samninganefndarinnar sem er kýrskírt og við vorum með fyrir framan okkur og var sönnun þess að viðmælendur hennar: Eyþór Arnalds, Vigdís Hauksdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir voru ekki að fara rétt með þegar þau könnuðust ekki við að þau hefðu samþykkt þetta svona. Sömu sögu hefur reyndar verið að segja af Hildi Björnsdóttur og Mörtu Guðjónsdóttur sem einnig sátu fundinn.“

Niðurstaða fyrrum borgarstjóra er eftirfarandi:

„Þannig að María Sigrún var með öll gögn sem sönnuðu að minnihlutinn í borgarstjórn samþykkti aðferðarfræði og upplegg samningana um bensínstöðvalóðir árið 2019 – hún var með það á upptöku úr viðtölum vorið 2024 að þau könnuðust alls ekki við það fimm árum síðar en hlífði þeim við að draga það fram. Þar með er hún óbeint að taka þátt í þeirra pólitíska leik í stað þess að miðla því sem fyrir liggur í málinu svart á hvítu til almennings. Hún notaði upptöku af mér þar sem ég bendi henni á hvar þetta standi í gögnunum til að gefa til kynna að það sé ekki þar. Kannski var það gott sjónvarp – drungalegt fundarherbergi og fiðlutónlist undir – en varla merkileg fréttamennska. Kastjós á ekki að vera Staksteinar.“

Gæti verið mynd af 1 einstaklingur og texti

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí