Halla Þórisdóttir forsetaframbjóðandi segist vonast til að rísandi fylgi hennar dugi til að Íslendingar velji hana sem forseta.
Nokkur mundur mældist á Katrínu Jakobsdóttur og Höllu Tómasar sem er nú með næstmesta fylgið í könnun Maskínu sem kynnt var á Stöð 2 í gærkvöld. Halla T. er eigi að síður hástökkvari síðustu vikna og ef fylgi hennar heldur áfram að vaxa stefnir í sérlega spennandi kosninganótt.
Fylgismenn Katrínar nutu þess í mælingunni í gær að margir frambjóðendur sem velgja henni undir uggum deila svipuðu magni af fylgi. Árangur Katrínar að ná aðeins til fjórðungs þjóðarinnar er lakari en stuðningsmenn hennar sáu fyrir að því er heimildir úr herbúðum Katrínar hafa upplýst fyrir Samstöðinni.
Katrín er sem stendur líklegasta forsetaefnið en allt getur enn gerst, segir Ólafur Harðarson prófessor emeritus í stjórnmálafræði. Þá er enn talið mögulegt að einhverjir frambjóðendur hætti við framboð á lokasprettinum og ef það verður með því formerki að frambjóðandi lýsi yfir stuðningi við annan frambjóðanda gæti það breytt stöðunni.
Margir ræða taktíska kosningu en til að þeir sem vilia ekki Katrínu sem forseta vegna fyrri starfa hennar geti kosið gegn henni þarf að liggja fyrir á hvern skuli veðjað. Þetta kom meðal annars til umræðu við Rauða borðið á Samstöðinni í gær þar sem fjöldi blaðamanna spáði í spilin en eitt hlutverk forseta er að vera sameiningartákn.
Hugur þjóðarinnar hefur verið mældur til frammistöðu frambjóðenda æi kappræðum. Hefur Halla T. í tvígang skorað hæst og segist hún vonast til að ná markmiði sínu.
„Við önnum ekki eftirspurn, því miður er bara vika eftir því það er mikill áhugi hjá fólki og vinnustöðum um allt land. Ég geri mitt besta til að hitta eins marga og ég get og svo velur fólkið forsetann. Ég trúi því að við séum þar öflugur valkostur,“ segir Halla T. í samtali við Vísi.