Hefði kosið Katrínu – ef allt væri með felldu

„Ef allt væri með felldu, skondraði ég á kjörstað á afmælisdegi Hafnarfjarðar og kysi Katrínu Jakobsdóttur í embætti forseta Íslands. Það hefði ég mjög líklega gert árið 2016, meðan enn var allt með felldu í ferli hennar og framgöngu. Ég var að vísu ekki mjög impóneraður yfir verkum hennar í menntamálaráðuneytinu á tíma Jóhönnustjórnarinnar – en látum vera. Framganga hennar eftir það gerir það að verkum að hún er tæplega valkostur. “
Þetta skrifar Guðmundur Rúnar Árnason, fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði, á Facebook en raunar er virðist þetta viðhorf nokkuð algengt, enda samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn sem hefur í raun gert Katrínu umdeilda. Nema að sjálfsögðu meðal Sjálfstæðismanna, sem eru hennar dyggustu stuðningsmenn í dag.

Í forsetaframboðinu hafa reglulega heyrst raddir sem segjast ekki skilja þetta atrið, hvort sem það sé í einlægni eður ei. Guðmundur Rúnar útskýrir það svo:

„Ég ætla ekki að rekja dæmin. Þau eru mörg. Látum duga að segja að Katín hafi fært mesta ógæfufólki íslenskra stjórnmála á síðari árum meiri áhrif en gott getur talist. Hún hefur farið fyrir ríkisstjórn sem hefur tekið mannfjandsamlegri afstöðu í fjölmörgum málum en við höfum áður séð og vilji þjóðarinnar hefur staðið til. Í hverju málinu á fætur öðru hefur almannahagsmunum verið fórnað á altari sérhagsmuna. Nú síðast leiddi persónulegur metnaður Katrínar Bjarna Benediktsson til æðstu metorða í forsætisráðuneytinu. Geri aðrir betur – eða verr. Nú skal það launað ríkulega. Stuðningsmenn hennar verja sumar gjörðirnar með því að vísa til þess að stjórnarsamstarf sé nú allt byggt á málamiðlunum. Úff. Hver var þá afstaða samstarfsflokkanna – t.d. í málefnum flóttamannahjálparinnar eða útlendingamálum almennt, ef niðurstaðan sem birtist okkur var málamiðlun? Stundum er þeim rökum beitt að vísa í að ráðherra sé næstum einráður í sínum málaflokkum – eins og það sé engin ríkisstjórn, málin séu ekki rædd, nema þá þannig að ráðherra segir hinum hvað hann ætli að gera (stundum, kannski). Eru þá engin prinsip? Látum duga að segja að “samstarfsmaðurinn/flokkurinn” fer eins langt og þú hleypir honum.“

Guðmundur Rúnar bendir einnig á að það segi sína sögu hverjir séu heitustu stuðningsmenn Katrínar nú. „Stundum er sagt: Sýndu mér vini þína og ég skal segja hver þú ert. Sumir hafa fengið yfir sig gusur fyrir að nefna þetta. Gott ef Kolbrún Bergþórsdóttir ésúsaði sig ekki rækilega og líkti umræðunni við einelti og framkomu frægs útlends eltihrellis. Kurteisislegasta útgáfan er þessi: Af hverju talarðu ekki bara um þann sem þú ætlar að kjósa, frekar en að tala um einhvern sem þú ætlar ekki að kjósa? Ég get svosem bara svarað því fyrir mig. Svarið er einhvern veginn svona: Ég hef ekki mikinn áhuga á forsetaembættinu sjálfu. Mér finnst samt skipta máli að þar sitji einstaklingur með sæmilega óbrenglaða dómgreind, komi vel fyrir, sé vel innréttaður og beri velferð almennings fyrir brjósti, frekar en sérhagsmunaafla, þótt starfið gefi ef til vill ekki tilefni til að blanda sér mjög í baráttuna milli sérhagsmuna og almannahagsmuna. Og helst vil ég að einstaklingurinn sem gegnir embættinu fari ekki mjög mikið í taugarnar á mér – svona almennt. Sem betur fer er nokkurt úrval einstaklinga sem uppfylla þessi skilyrði. Ég er enn að ákveða mig og í því ferli er útilokunaraðferðin mikilvægt tól. Ég er búinn að útiloka þrjá frambjóðendur: Arnar Þór Jónsson, Höllu Tómasdóttur og Katrínu Jakobsdóttur. Af hverju? Það snýst ekkert endilega um framgöngu þeirra í kosningabaráttunni, heldur það sem sést hefur til þeirra og heyrst – og fyrir hvað þau standa svona almennt. Þessi þrjú hef ég útilokað meðvitað. Einhverja af frambjóðendunum sem eftir standa mun undirmeðvitundin líklega útiloka sjálfkrafa, án þess að ég þurfi að rökstyðja það með sjálfum mér,“ segir Guðmundur Rúnar og telur svo upp nöfn nokkra áberandi stuðningsmanna Katrínar:

„En aftur að vinunum. Þar ber hæst (nú eða lægst, því eðli máls samkvæmt vinna sumir þeirra mest undir yfirborðinu) ýmsa ógæfumenn úr pólitískri umræðu og starfi. Til að nefna nokkur nöfn af handahófi: Friðjón Friðjónsson, Andrés Magnússon, Hannes Gissurarson, Páll Vilhjálmsson – Morgunblaðið og allt það batterí. Skrímsladeildin sumsé. Og auðvitað fullt af góðgjörnu og sómakæru fólki líka. Skárra væri það nú.“

Allt þetta gerir það að verkum að Guðmundur Rúnar segist ekki sjá betri kost en kjósa þann sem er líklegastur að sigra Katrínu. „Af þessu öllu leiðir að ég ætla að kjósa taktíst. Ég ætla að kjósa þann sem verður líklegastur þegar nær dregur, til að koma í veg fyrir að Arnar, Halla T. eða Katrín verði kjörin. Auðvitað gætu aðstæður hagað því þannig að ég þyrfti að velja á milli tveggja af þeim. Þá held ég að ég léti mig hafa það að kjósa Katrínu eins og ég er stemmdur í dag.

Ég spáði því þegar fyrstu kannanir um fylgi voru birtar, að Katrín fengi aldrei meira en þriðjung atkvæða. Það væri sama hvað gengi á – fylgi hennar kæmi ekki til með að aukast. Það gæti aftur á móti minnkað. Nú er það um eða innan við fjórðungur. Etv liggur hámarkið þar. Kannanir sýna aftur á móti, að aðrir gætu átt eitthvað inni. Framganga þeirra fram að kosningum gæti því ráðið úrslitum. Ætla þau öll að halda framboðinu til streitu, svo dæmi sé tekið? Mesta hættan er sú, að innbyrðis slagur þeirra dreifi atkvæðum þannig að fjórðungsfylgi dugi. Það væri ekkert sérstaklega gott.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí