Magnús Davíð Norðdahl lögmaður og pírati skorar á þau sem mælast nú með töluvert fylgi sem forsetaframbjóðendur sem muni þó ekki duga til að veita þeim brautargengi til forseta, að draga sig í hlé og falla frá framboði. Annars dreifist atkvæðin of víða og fyrrverandi forsætisráðherra verði forseti í óþökk svo margra. Með því að frambjóðendur falli frá framboði aukist líkur á að Katrín Jakobsdóttir verði ekki forseti.
Þetta kemur fram í færslu á facebook frá Magnúsi.
„Fyrir einhvern sem ekki sér fram á að vinna getur sá hinn sami ráðið niðurstöðu eða í öllu falli haft mikil áhrif á hver verður næsti forseti. Ekki síst myndi slík viðleitni vafalaust tryggja að einhver annar en Katrín Jakobsdóttir yrði forseti þar sem hún er á sama tíma vinsælust og óvinsælust á meðal kjósenda. Líkast til myndi Baldur Þórhallsson græða mest á slíku enda sá frambjóðandi sem flestir nefna í öðru sæti á eftir sínum uppáhaldsframbjóðanda,“ segir Magnús.
„Þá spyr ég hin fimm efstu, hvort þau vilji frekar tapa í komandi kosningum eða ráða því hver skipar embættið næstu árin. Sá á kvölina sem á völina. Þetta á að einhverju leyti einnig við um frambjóðendur með minna fylgi þó áhrif af brotthvarfi þeirra yrðu ekki eins afgerandi.“