Svo virðist sem margir á Íslandi hafi lifað í þeirri trú að fyrirtæki eins og Wolt og Uber byggi á einhvers konar tækninýjungum eða nýsköpun. Halda jafnvel að snillingarnir í hugbúnaðargeiranum vestanhafs hafi einfaldlega leyst vandamál sem engum öðrum tókst. Nú geti Íslendingar loksins fengið heimsendan mat á sæmilegu verði, nokkuð sem virtist ekki ganga upp á Íslandi, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. En þökk sé hugviti fyrirtækisins Wolt, sem er frá Finnlandi, er hægt að fá heimsendan mat fyrir nær engan auka kostnað, að svo virðist.
Hvernig tekst Wolt að gera það? Margir hafa líklega ályktað að flókin reiknilíkön eða álíka tækninýjung gerði þetta kleift. Nei, undirstöðuna má fremur finna í hugmyndum úr fornöld. Ekki verður betur séð en að viðskiptalíkanið snúist um að nýta sér neyð þeirra sem hafa það allra verst í samfélaginu, eins og til dæmis flóttamenn með engin atvinnuréttindi.
„Lausnin“ við því að bjóða heimsendan mat á Íslandi á viðráðanlegu verði virðist vera að borga sendlunum svo illa að tímakaupið er minna en hjá börnunum í Unglingavinnunni. Nýsköpunin fellst í því að fá að stunda þennan rekstur án afskipta lögreglu eða vinnueftirliti.
Halldór Oddsson, lögfræðingur hjá ASÍ, segir í grein um fyrirtækið að sendlarnir séu í raun að fá ævintýralega léleg laun. Börn fædd 2007 fá 2.660 krónur á tímann í Vinnuskólanum eða Unglingavinnunni í sumar. Íslenskir unglingar hafa að vísu kvartað ítrekað yfir þeim laun en þau geta þó huggað sig við þau eru þó ekki sendlar hjá Wolt. Tímakaup þeirra er líklega nálægt þúsund kallinum þegar allt er tekið inn í myndina.
Sendillinn fær fasta greiðslu á hverja pöntun, 1720 krónur, en sendillinn fær einungis um það þúsund krónur í vasann. Þetta eru verktakagreiðslur og allur kostnaður er á endanum dreginn af þeirri tölu. Það á eftir að draga frá skatt, bensínkostnaður og ýmislegt annað af þessari upphæð. Þó einhverjir sendlar geti verið naskir og náð mörgum pöntunum á stuttum tíma, þá líklega flestum orðið ljóst af hverju Íslendingar sjást sjaldan í þessu starfi.
Halldór útskýrir nánar: „ASÍ og stéttarfélögin hafa gögn undir höndum sem sýna að sendlar hjá Wolt á Íslandi sem hjóla, keyra eða ganga með matarsendingar með rennblautan 7 stiga vorlægðarvindinn í andlitið, gera það fyrir skammarlega léleg laun. Kerfið byggir svo á fullkomlega ógagnsæjum einhliða verðmyndunar-algóriþma sem hannaður er til að finna sársaukaþröskuldinn um hversu fáar krónur er hægt að koma í vasa sendilsins án þess að viðkomandi hætti að sjá tilgang vinnunnar. Framangreint rímar fullkomlega við það sem virðist vera í gangi hjá Wolt og mörgum sambærilegum fyrirbærum í löndunum í kringum okkur.“