Eitthvað hefur staðan á þingi skýrst meira eftir því sem leið á daginn, en í frétt RÚV í eftirmiðdeginu kemur í ljós að ríkisstjórnarflokkarnir hafa að því er virðist komið sér saman um að samþykkja frekari sölu á Íslandsbanka.
Eitthvað hrikalega finnst ríkisstjórninni liggja á að koma bankanum í sölu aftur, en flestir muna vel eftir því hvernig því var klúðrað síðast.
Sala á Íslandsbanka er þar með ofar á forgangslista en gríðarstór og umfangsmikil samgönguáætlun, en frestun hennar mun þýða að öll vinnan við umsagnir þeirrar áætlunar mun verða gerð að engu því endurtaka þarf það ferli á nýju þingi. Margra mánaða vinna í súginn.
Hins vegar virðist það ríða mjög á að selja fleiri hluti í Íslandsbanka til vel valdra vina og vandamanna ráðandi afla, eins og gerðist einmitt síðast.
Hvað vakir fyrir Vinstri grænum og Framsókn með því að samþykkja slíkt, er óvíst. Ef hugað er að pólitískri kænsku þá er enga að sjá í því leyfa Sjálfstæðisflokknum að halda áfram með gríðarlega óvinsælt uppáhalds mál sitt. Fylgi samstarfsflokkanna lækkar nefnilega mest, langtum meira en Sjálfstæðisflokksins, þannig að þeim virðist helst vera hegnt fyrir misbresti ríkisstjórnarinnar í heild.
Ef staðan er skoðuð út frá hugmyndafræði, gildum og prinsippi, þá er þetta ennþá óskiljanlegra. Vinstri flokkur og miðjuflokkur, ef svo má kalla þá, eru ekki að fylgja eftir sínum vilja eða hugmyndum með því að einkavæða banka.
Málið verður væntanlega tekið til afgreiðslu í næstu viku og lítur út fyrir að það njóti stuðnings ríkisstjórnarflokkanna, því annars væri það ekki svo ofarlega á dagskrá.