Samgönguáætlun hefur fallið í valinn. Ósamstæðir ríkisstjórnarflokkarnir bítast nú á um hvert af ógrynni mála skuli rata í forgang fyrir þinglok, enda tíminn að renna út bæði á þingi en mögulega fyrir ríkisstjórnarsamstarfið líka.
Eitt fórnarlambanna er samgönguáætlun sem gilda á fyrir stórt tímabil, frá 2024 til 2038, með fjárfestingar og fjárveitingar til ýmissa innviða hringinn í kringum landið upp á 900 milljarða. Málið hefur lengi verið í undirbúningi og gríðarmikil vinna farið fram í umhverfis- og samgöngunefnd um málið frá því í október, að sögn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur.
70 umsagnir ýmissa hagaðila, ótal umræður og fundarhöld séu að baki, en ríkisstjórnarflokkarnir hafi skyndlega ákveðið að fresta afgreiðslu málsins þangað til á nýju þingi í haust.
„Allri vinnunni var kastað í ruslið. Verði samgönguáætlun lögð fram aftur í haust þarf því að fara í alla vinnuna aftur, óska eftir umsögnum aftur og funda með öllum hagaðilum aftur. Sturluð tímasóun og kostnaður af svona vinnulagi“, sagði Þorbjörg í spurningu til Sigurðar Inga, fjármálaráðherra, í þingsal í dag.
Málið er runnið undan rifjum Sigurðar Inga frá hans tíð sem innviðaráðherra, en nú þegar hann gegnir embætti fjármálaráðherra virðist frumvarpið ekki stemma við fjármálaáætlun.
„Rök ríkisstjórnarinnar fyrir því að slátra samgönguáætlun eru, að þeirra eigin sögn, misræmi milli samgönguáætlunar og þess fjármagns sem ætlað er í verkefnið! Þessu misræmi er lýst sem óviðunandi ástandi. En hvar liggur þetta misræmi nákvæmlega? Liggur misræmið einhverstaðar á mörkum fyrrverandi innviðaráðherra og núverandi fjármálaráðherra?“
Svo spurði Þorbjörg reiðilega í pontu þingsins.
Málið er hið undarlegasta því hádegisfundi umhverfis- og samgöngunefndar var frestað á föstudaginn og ekki tókst að ná sambandi við nefndarformanninn Bjarna Jónsson úr Vinstri Grænum. Skyndilega hringdi hann svo í nefndarmenn um kvöldið með hálftíma fyrirvara og endurbókaði fundinn, en á þeim fundi var ákveðið af meirihluta nefndarinnar að fresta málinu. Taktíkin að því er virðist sniðin að því að freista þess að flýta þeirri ákvörðun með því að gera nefndarmönnum erfiðara fyrir um að mæta á fundinn með svo skömmum fyrirvara.
„Á föstudagskvöld klukkan hálf sjö er haldinn fundur í umhverfisnefnd þar sem meirihlutinn tilkynnir minnihlutanum það að stærsta verkefni sem nefndin hefur haft til meðferðar í allan vetur verði kastað í ruslið“, útskýrði Þorbjörg, en hún er varaformaður nefndarinnar. Þorbjörg kallaði jafnframt eftir viðbrögðum forseta Alþingis vegna vinnubragða formannsins sem hún kallaði „ævintýralega léleg“. Viðbrögð Birgis Ármannssonar, forseta Alþingis og þingmanni Sjálfstæðisflokksins, voru engin.
Þetta er að einhverju leyti undarleg framvinda því Sjálfstæðisflokkurinn virðist fá fyrir sinn snúð ýmislegt, þingið hefur nú þegar samþykkt harkaleg útlendingalög sem dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hafði á sinni könnu. Þá er áframhaldandi sala Íslandsbanka ennþá á dagskránni.
Vinstri græn virðast ætla að reyna að koma í gegnum þingið lögum um almannatryggingar sem þau binda miklar vonir við, en óvíst er hvort það nái að komast í gegn. Það sama gildir um umdeilt frumvarp þeirra um lagareldi.
Hvað fær Framsókn? Húsaleigufrumvarp Sigurðar Inga fær varla forgangsröðun umfram þessi stærri mál, sér í lagi fyrst að samgönguáætlun nær ekki framgangi, sem er langtum stærra mál að gráðu en einnig mikilvægi fyrir Framsóknarflokkinn sem gæti nýtt sér það í komandi þingkosningum í landsbyggðarkjördæmunum. Kannski er það ástæða tafanna, hinir stjórnarflokkarnir vilja ekki gefa Framsókn svona vænan bita af borðinu? Eða vilja Vinstri græn, sem nú stjórna innviðaráðuneytinu og er formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Bjarni Jónsson, sem frestaði málinu úr þeirra röðum, freista þess að eigna sér málið að einhverju leyti?
Það eru allt vangaveltur, en það sem er víst er að öll vinnan sem fór fram í nefndinni og tók marga mánuði, þarf að endurtaka á haustþingi, lögum samkvæmt og gríðarleg tímasóun og sóun fjármuna skattgreiðenda fólgin í því. Á meðan koma ekki nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum vega og samgangna víða um land eins og dekkað er í áætluninni sem nú var frestað.