Auðvaldið í Bandaríkjunum skelfur núorðið af áhyggjum yfir öldrun Joe Bidens og slæmri frammistöðu hans í kappræðum.
Eins og frægt er orðið var frammistaða Bidens í kappræðunum gegn Donald Trump vægast sagt sláandi slæm. Biden bar greinileg merki öldrunar sinnar, tafsaði mikið, gleymdi því hvað hann var að segja í miðju máli og varð því afar samhengislaus á köflum. Trump stóð sig auðvitað ekki vel heldur, enda sagði hann varla stakt orð sem reyndist satt eða rétt, heldur hélt hann áfram sinni orðræðu lyga, sundrungar og andúðar. Trump var þó skýr í rugli sínu. Biden var það ekki.
Síðan þá hefur flokkur Demókrata leikið á reiðiskjálfi og enginn virðist samstíga um framhaldið. Margir hafa velt upp hugmyndinni um að skipta Biden út fyrir annan frambjóðanda, sem gæti reynst varasamt svo stuttu í kosningar, fyrir utan það að enginn virðist sammála um hver það ætti að vera.
Biden hefur sjálfur lýst því yfir að hann ætli að halda áfram þó hann viðurkenni slæma frammistöðu sína, en hann hefur kennt slæmum svefni og miklum ferðalögum um hana, sem og aldurs.
Nú eru fjárhagslegir bakhjarlar Demókrata hins vegar skelfingu lostnir ef marka má fréttaflutning vestanhafs. Áhrifamiklir velgjörðarmenn flokksins hafa tekið sig saman um að mynda 100 milljón dollara neyðarsjóð sem renna myndi til nýs frambjóðanda ef slíkur kæmi skyndilega til. Þá hafa aðrir hreinlega dregið stuðning sinn til baka nema Biden ákveði að hætta.
Ein þeirra er Abigail E. Disney, erfingi Disney-veldisins. Hún segir flokkinn og Biden ekki fá einn dollara til viðbótar frá sér nema þau bíti á jaxlinn og skipti Biden út. Biden sé góður maður en staðan sé einfaldlega of alvarleg til að taka sénsinn. Aðrir bakhjarlar halda áfram að styðja Biden, en virðast flestir hverjir gera það með semingi. Engin sátt virðist ríkja meðal auðvaldselítu flokksins um Biden sem áframhaldandi frambjóðanda Demókrata til forseta.
Út af fyrir sig segir þetta auðvitað margt um stöðu bandarísks „lýðræðis“, sem betur mætti kalla auðræði. Horfur Bidens velta að miklu leyti á áframhaldandi dælingu fjármagns í kosningabaráttu hans, sér í lagi núna þegar dregur að kosningum í nóvember, en eyðsla frambjóðenda eykst gífurlega á síðustu mánuðunum fyrir kjördag.