Vinir Yazans gefa út stuðningsyfirlýsingu – „Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang“

Fjöldi þjóðþekktra Íslendinga hafa undirritað stuðningsyfirlýsinguna, en í hópnum eru Bubbi Morthens tónlistarmaður, Andri Snær Magnússon rithöfundur, Alma Ýr Ingólfsdóttir formaður ÖBÍ og mikill fjöldi annarra. Samtals 821 skrifuðu undir og gefa út yfirlýsinguna í sameiningu.

Yazan og fjölskyldu hans á að vísa úr landi á allra næstu dögum ef marka má fyrri umfjöllun fjölmiðla, en áfrýjunarnefnd útlendingamála neitaði að taka mál hans aftur upp til efnislegrar meðferðar. Yazan er 11 ára gamall og er með sjaldgæfan sjúkdóm, en hvers kyns truflun á heilbrigðisþjónustu hans getur valdið honum óafturkræfum skaða.

Yfirlýsingin hljóðar svo:

„Það sem Yazan er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang.

Okkur ber að gera betur!

Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar stjórnvöld gera ráðstafanir um hagi þess (Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna). Það er því satt og rétt að við eigum að liðsinna Yazan hér á landi. Þessi 11 ára drengur er með sjaldgæfan vöðvarýrnunarsjúkdóm, Duchenne, og nýtur heilbrigðisþjónustu á Íslandi sem læknar staðfesta að megi ekki rjúfa.

Við flutning hans frá landinu skerðist þjónustan verulega og setur heilsu og líf Yazans í hættu. Það yrði brot á rétti hans til að lifa, þroskast, njóta verndar, og umönnunar í samræmi við aldur og þroska.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir að í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skuli fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.

Að hjálpa öðrum í neyð er ófrávíkjanleg regla. Að rétta Yazan og fjölskyldu hjálparhönd er aðstoð sem veitt er af mannúð og skyldurækni. Það er því siðferðilega rétt að hætta við brottvísun hans.

Virðum þá mannréttindasamninga sem íslenska ríkið hefur lögfest og undirgengist og sýnum mannúð í verki.

Yazan á heima hér.

Yfirlýsingin er birt fyrir hönd  einstaklinga og nöfn þeirra má finna hér:

https://viniryazans.wordpress.com

Með von um góð viðbrögð

Fyrir hönd Vina Yazans,

Unnur Óttarsdóttir“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí