„Fókusinn var að taka Þórð niður. Þeim tókst það“

„Þórður Snær hefur nú verið útilokaður frá kosningabaráttunni og úr stjórnmálaumræðu dagsins. Það tókst. Þórður Snær hefur fyrir löngu sannað sig sem einn besti blaðamaður og greinandi á íslenskt samfélag sem við höfum átt. Ég vona svo sannarlega að rödd hans þagni ekki.“

Þetta skrifar Axel Jón Ellenarson, samskiptastjóri og ritstjóri hjá Sameyki stéttarfélagi, en hann er einn þeirra sem er enn hneykslaður á því hve auðveldlega hægrimönnum hefði tekist að stöðva stjórnmálaþátttöku Þórðar Snæ Júlíussonar, blaðamanns og ritstjóra. Þórður sagðist ekki ætla að taka sæti á Alþingi, fengi hann á annað borð kjör, vegna skrifa sem birtust fyrir áratugum. Í þeim skrifum talaði Þórður neikvætt um konur.

„Málið hefur eins og allir vita snúist um bloggskrif þar sem hópur ungra karla upp úr árinu 2000 skrifuðu tómt rugl sem ég held að í raun endurspegli ekki þeirra innri mann, heldur endurspeglað einhvern ruglaðan tíðaranda sem margir hafa tengt við hliðarsjálf Gillzenegger þar sem keppst var um að hneiksla og brjótast út úr einhverjum veruleika sem ég kann ekki að útskýra. Það þarf einhvern sagnfræðing og sérfræðing til að gera þennan tíðaranda íslenskra fjömiðla upp. Mér þykir blasa við að kollegar hans og samtíða í blaðamennskunni á hægri væng stjórnmálanna vissu af þessu bloggi og grófu upp skjáskot einungis til að fjarlægja hann úr stjórnmálaþátttökunni. Þeim tókst það,“skrifar Axel Jón á Facebook í dag.

Hann bendir á að markmiðið með þessu hafi ekki verið að auka umræðu um stöðu kvenna. „Nú eru engir að tala lengur um þetta mál því hann er farinn af þeim vettvangi sem þeir vilja ekki að hann sé á. Raddirnar hafa þagnað. Engin umræða úr þessari átt um kvenréttindi lengur því það er ekki fókusinn hjá þeim. Fókusinn var að taka Þórð niður. Þeim tókst það,“ segir Axel Jón.

Hann viðurkennir fúslega að vera ekki alveg hlutlaus því hann hafi unnið með Þórði. „Nú er ég ekki hlutlaus því ég þekki Þórð Snæ. Starfaði með honum í nokkur ár og veit hve gegnheill hann er í viðhorfum sínum og störfum, það hefur líka margsinnis komið fram í hans skrifum og ekki hvarflar að mér, síðan við kynntumst 2008, að hann hafi gengið með nokkurt hatur né fyrirlitningu í garð kvenna, þvert á móti hefur hann barist fyrir málstað kvenna og gegn karlrembuviðhorfum í samfélagsumræðunni. Ekki geri ég samt lítið úr alvarleika orðræðunnar sem þá var skrifuð og særði fólk,“ segir Axel Jón og heldur áfram:

„Umræðan hefur verið á þann veg að Þórður hafi læknast af einhverjum viðhorfum. Ég er sannfærður að skrif hans endurspegli ekki nú né endurspegluðu raunveruleg viðhorf hans til kvenna þá þegar þessir leikþættir voru skrifaðir. Bloggskrifin áttu greinilega að endurspegla persónuna „Þýska stálið“ sem augljóslega var gervipersóna sem lét allt flakka. Ég sá þessi skjáskot nýlega. Mér fannst þessi hliðarpersóna ekki fyndin og mér fannst Gillzeneggar heldur aldrei fyndin. Þótti hann kolruglaður en veit að hann var leikþáttur, gerður til að ganga fram af fólki. Ég man eftir þessum tíma þegar Gillz var á síðum allra blaðanna og birt voru við þá hliðarpersónu ótal viðtöl og fjölmiðlar löptu upp persónu hans án þess að kafa neitt dýpra. Kannski vissu fjölmiðlar þá að um leikþátt væri að ræða. Ekki nú eða hafa breytt söguþræðinum? Sumar greinar og viðtöl las ég við þessa persónu Gillz en ég skildi þetta aldrei, hvers vegna þessi áhersla á að hneiksla fólk með þessum rugluðu skrifum um hvernig karlar ættu að koma fram við konur. Allt tómt þvaður og vitleysa. Úr hverju var þetta sprottið? Var einhver andfemínísk bylgja í samfélaginu þá eða var þetta bara gert til að stuða einhverja? Ég er ekki að segja þetta til að fegra sjálfan mig og búa til einhverja fagra mynd af mér syndugum manni sem sagt hefur og gert hluti sem ég er ekki stoltur af. Ég fæ stundum póstkort frá helvíti eins og annað fólk. Við Sólveig Anna ræddum þessi skrif þegar þessar persónur hneislunarkúltúrsins komu fram á þessum tíma því allstaðar blasti þessi persóna og þessi rödd við í fjölmiðlum, stjórnaði umræðunni. Pældum í þessum viðhorfum sem birtust á síðum blaðanna og á því sem kallað var veraldarvefur og bloggsíður. Okkur fannst þetta bara dapurlegt, skildum þetta ekki.“

Að lokum segist Axel Jón vona að Þórður endurhugsi afstöðu sína um að taka ekki sæti á þingi: „Þess vegna eyddi Þórður Snær þessu bloggi eins og hann útskýrði fyrir alþjóð í yfirlýsingu sinni. En þeim tókst að kansela honum og hrinda honum frá með því að rifja upp 20 ára gömul skrif hliðarpersónunnar „Þýska stálsins“. Ég lít á þetta sem það var, hliðarpersóna gerð til að hneiksla. Þetta er orðinn hlutur. Ég ætla auðvitað ekki að kansela Þórði Snæ og vona að hann endurskoði afstöðu sína um að taka þingsæti og vona að flokkurinn hvetji hann til að taka þingsæti nái hann kosningu.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí