„Hversu heimskir þurfa menn að vera til að sjá ekki að þetta er bara létt grín frá Degi – svona örlítið svar við stöðugu eineltinu úr Hádegismóum?,“ spyr Björn Birgisson samfélagsrýnir á Facebook og vísar til fréttar sem birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem fullyrt var að nú frægt grín Dags B. Eggertssonar um að Sjálfstæðismenn gætu strikað hann út á kjörseðlinum gæti dregið dilk á eftir sér.
Menn ógilda kjörseðil sinn ef þeir strika út frambjóðendur hjá öðrum flokki en þeir kjósa svo. Í Morgunblaðinu er því haldið fram að þetta grín gæti endað með því að fyrrverandi borgarstjóri fengi sekt. Björn heldur áfram og skrifar:
„Af viðbrögðunum að dæma er Sjallar skíthræddir um að þeir fáu kjörseðlar í Reykjavík, sem koma úr kjörkössunum merktir með XD, verði eyðilagðir með útstrikun á Degi! Hvernig eiga kjósendur Sjalla í Reykjavík að skilja þetta? Flokkurinn þeirra lítur á þá sem fábjána. Eða eru það ekki hálfgerðir bjánar sem ekki vita að aðeins má kjósa einn lista og ekki hreyfa neitt við öðrum?“