„Í fyrsta sinn í Íslandssögunni eru bæði ytri aðstæður og niðurstöður kosninga fyrir hendi sem gera það mögulegt að ráðast í alvöru, sanngjarna og réttláta uppfærslu á kerfunum í íslenskri stjórnsýslu. Að búa til ríkisstjórn, undir forystu öflugra kvenna, sem ætlar sér að vinna fyrir allt fólkið í landinu, ekki bara sumt. Stjórn sem ætlar sér að ná alvöru efnahagslegum stöðugleika og byggja upp lífskjör og velferð á́ grundvelli ábyrgrar hagstjórnar og verðmætasköpunar. Hinn valkosturinn er enn ein valdsækin íhaldsstjórn sérhagsmuna og frændhygli.“
Svo hefst pistill eftir Þórð Snæ Júlíusson, fjölmiðlaman og fyrrverandi frambjóðanda Samfylkingarinnar. Hann segir að niðurstaða kosninganna sé söguleg og að þær marki nýtt upphaf á Íslandi. Hann segir það sjást vel ef horft er á þær tvær mögulegu ríkisstjórnir sem helst sé talað um nú, annars vegar DCM – stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Miðflokks, eða þá SCF-stjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokk fólksins.
„Nýtt upphaf blasir við á Íslandi. Nú er tækifæri til að mynda frjálslynda félagshyggjustjórn sem lætur almannahag, ekki sérhagsmuni, ráða för. Stjórn sem setur sér skýr markmið og togar öll í sömu átt, í stað þess glundroða sem ríkt hefur á nýliðnu kjörtímabili. Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég að það væri ekki einhver pólitískur ómöguleiki að breyta íslensku kerfunum úr því að vera valdakerfi þar sem gæðum er úthlutað í að vera þjónustukerfi þar sem gæði eru tryggð. Og að það væri vel hægt að gera það án þess að auka álögur á heimilin í landinu,“ segir Þórður Snær og heldur áfram:
„Niðurstöður kosninganna sýna að það er nú möguleiki á að innleiða þessar breytingar. Það er gerlegt að ráðast í alvöru uppfærslu. Ná alvöru efnahagslegum stöðugleika og byggja upp lífskjör og velferð á́ grundvelli ábyrgrar hagstjórnar og verðmætasköpunar. Það er hægt að mynda ríkisstjórn sem starfar fyrir allt fólkið í landinu, ekki bara sumt. Vonandi ber okkur gæfa til að koma slíkri ríkisstjórn á. Hinn valkosturinn er enda bara enn ein valdsækin íhaldsstjórn sérhagsmuna og frændhygli líkt og verið hefur meira og minna síðastliðinn rúman áratug. Skýrasta niðurstaða nýafstaðinna kosninga var að það er enginn salur fyrir slíkri.“
Hér má lesa pistil Þórðar Snæs í heild sinni.