Evrópa er að þétta raðirnar og styrkja stöðu sína í öryggis- og varnarmálum

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra skrifaði:

Nú er tími til að þétta raðirnar. Með öðrum Norðurlöndum, NATO-ríkjum og Evrópu.

Þannig stöndum við með gildum okkar og gætum hagsmuna Íslands.

Ég tók þátt á Öryggismálaráðstefnunni í München um helgina með fjölda leiðtoga víðs vegar að úr heiminum – en einkum frá Evrópu og Norður-Ameríku.

Við ræddum meðal annars samvinnu Vesturlanda í öryggis- og varnarmálum. Þó að breyttar áherslur kunni að fylgja nýrri Bandaríkjastjórn þá er brýnt að rjúka ekki upp til handa og fóta. Heldur bregðast við með skynsemi og stefnufestu. Það munum við gera í samstarfi við nágranna okkar og vinaþjóðir, þar með talið Bandaríkin.

Evrópa er að þétta raðirnar og styrkja stöðu sína í öryggis- og varnarmálum. Það er bæði jákvætt og tímabært. Og þar mun Ísland leggja sitt af mörkum eins og vera ber.

Við Íslendingar njótum friðar vegna þess að við eigum trausta bandamenn. Við erum ekki aðalleikari á alþjóðasviðinu – en við viljum vera áreiðanleg í samstarfi við vinaþjóðir okkar. Þannig tryggjum við best hagsmuni Íslands. Enda eigum við allt okkar undir virðingu fyrir alþjóðalögum.

Rætt var um stöðuna í árásarstríði Rússlands í Úkraínu. Þar er ljóst að réttlátur og langvarandi friður er aðeins mögulegur ef Úkraína á sæti við samningaborðið. Í sameiginlegri yfirlýsingu Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8-ríkjanna) áréttuðum við eindreginn stuðning okkar við Úkraínumenn.

Ég tók þátt í pallborðsumræðum með leiðtogum Finnlands, Króatíu og Lettlands og í sameiginlegum fundi leiðtoga NB8-ríkjanna. Þar að auki átti ég fjölda tvíhliða funda – meðal annars með kanslara Þýskalands, forseta leiðtogaráðs ESB, forsætisráðherrum Danmerkur, Palestínu, Lúxemborgar og Kósóvó, lögmanni Færeyja og framkvæmdastjóra Evrópuráðsins.

Á hverjum einasta fundi með fulltrúum Evrópusambandsríkja gætti ég hagsmuna Íslands sem EES/EFTA-ríkis gagnvart mögulegum aðgerðum í tollamálum. Þar kom fram fullur skilningur á að Evrópa megi ekki undir nokkrum kringumstæðum skaða viðskiptahagsmuni Íslands með aðgerðum sem ætlað er að bregðast við tollahækkunum annarra ríkja.

Þetta var í fyrsta skipti sem ég stend í forsvari fyrir Ísland á alþjóðlegum vettvangi. Það gekk vel. Með mér í München var líka Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sem hélt stefnu okkar á lofti á fundum með kollegum sínum og sérfræðingum á sviði öryggis- og varnarmála.

Ég veit að alþjóðamálin verða áfram ofarlega á baugi á næstu misserum. En nú höldum við heim. Þétt vika framundan í þinginu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí